Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur ákveðið að áfrýja úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli stofnunnarinnar gegn Sante ehf, Santewines SAD og Bjórlandi ehf.
Þetta kemur fram á vef ÁTVR í dag en héraðsdómur úrskurðaði í málinu í síðustu viku.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagðist í samtali við mbl.is í gær ekki sjá ástæðu til að áfrýja því dómurinn væri „ágætlega rökstuddur.“
ÁTVR hafði höfðað einkamál gegn Bjórlandi og Santewines þar sem stofnunin taldi félögin hafa valdið stofnuninni tjóni með sölu félaganna á áfengi í gegnum netsölur sínar. Fór ÁTVR meðal annars fram á að viðurkennd yrði bótaskylda vegna meints tjóns sem ÁTVR hefði orðið fyrir af sölu áfengis sem ekki var selt á grundvelli einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis hér á landi.
Fóru bæði Bjórland og Santewines fram á að málunum yrði vísað frá dómi og töldu ÁTVR ekki eiga lögvarða hagsmuni af málshöfðuninni.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að óumdeilt sé að ÁTVR sé aðildarhæft að málinu. Dómkröfur stofnunarinnar hafi hins vegar lotið að framfylgd verkefna sem sem ÁTVR sé falið samkvæmt lögum. Segir að stofnunin hafi ekki getað sýnt fram á það á hvaða lagagrundvelli lögvarðir hagsmunir af úrlausn málsins byggi og að ekki sé nægilegt að vísa í almennt hlutverk ÁTVR og markmiðsákvæði laga sem byggi á lýðheilsusjónarmiðum og sjónarmiðum um samfélagslega ábyrgð. Því geti ÁTVR ekki talist hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
Tekur dómurinn meðal annars fram að annmarkar á málatilbúnaði ÁTVR séu slíkir að þeir leiði til frávísunar málanna í heild, fremur en að á þá reyni við efnisúrlausn málsins.