Einsdæmi í íslenskri réttarsögu?

Í vínbúð ÁTVR.
Í vínbúð ÁTVR. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Aðstoðarforstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins segir að hjá stofnuninni telji fólk rétt að nýta þá leið að áfrýja málum ÁTVR gegn San­te ehf, San­tew­ines SAS, Arnari Sigurðssyni og Bjór­landi ehf. 

Lögmaður Sante veltir fyrir sér hvort það sé einsdæmi í íslenskri réttarsögu að ríkisstofnun kæri til æðra dómsstigs eftir að æðsti yfirmaður stofnunarinnar hafi lýst þeirri skoðun opinberlega að rétt væri að láta staðar numið. 

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði málunum frá síðasta föstudag en ÁTVR tilkynnti í gær að úrskurðum Héraðsdóms yrði vísað til Landsréttar. 

„Við fórum yfir málið með okkar lögfræðingum og töldum rétt að fá álit Landsréttar á þessum álitamálum sem frávísunin byggir á. Við teljum rétt að klára þá leið og fá úr þessu skorið,“ sagði aðstoðarforstjórinn Sigrún Ósk Sigurðardóttir þegar mbl.is hafði samband í dag.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir. Ljósmynd/atvr.is/Vigfús Birgisson

Spurð um hvort niðurstaða Héraðsdóms hafi komið þeim hjá ÁTVR á óvart sagðist hún ekki ætla tjá sig um það. 

„En við viljum alla vega halda áfram með málið,“ sagði Sigrún sem er tengiliður stofnunarinnar við fjölmiðla en forstjórinn, Ívar Arndal, er ekki til viðtals. 

Hljóð og mynd fer ekki saman

Birgir Már Björnsson, lögmaður Sante, segir að það komi honum nokkuð á óvart að ÁTVR hyggist kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar. 

Birgir Már Björnsson, lögmaður.
Birgir Már Björnsson, lögmaður.

„Hins vegar áttu umbjóðendur mínir í upphafi allt eins átt von á að þetta yrði raunin, óháð niðurstöðu málsins, í ljósi þess mikla kostnaðar sem ÁTVR hefur þegar varið í tilhæfulausar aðgerðir gagnvart umbjóðendum mínum, ekki bara fyrir dómstólum heldur einnig gagnvart lögreglu, ráðuneyti og ýmsum eftirlitsstofnunum. Úrskurður héraðsdóms, sem tekur undir og staðfestir allar sjö frávísunarástæður í málinu með sjálfstæðum hætti, er hins vegar skýr um að með þessum aðgerðum sínum hafi ÁTVR tekið sér valdheimildir sem stofnunin hefur ekki að lögum. Fallið er því skiljanlega nokkuð hátt fyrir stjórnendur ÁTVR sem þar taka ákvarðanir.“

Birgir segir jafnframt að það sé þá afar sérkennileg staða og líklega einsdæmi í íslenskri réttarsögu, að ríkisstofnun hyggist taka ákvörðun um kæru til æðri dóms þegar fyrir liggur að æðsti yfirmaður viðkomandi stofnunar, sem héraðsdómur var um skýr um að færi með hina umræddu hagsmuni að lögum, hefur þegar komið fram í fjölmiðlum með þá skoðun sína að hann telji ekki rétt að kæra frávísun málsins.

„Þar fer ekki saman hljóð og mynd,“ sagði Birgir Már Björnsson við mbl.is í dag og vísar þar til viðtals Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við mbl.is í gær.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert