Höfðar mál gegn veiðifélaginu sínu fyrir Hæstarétti

Veitt í Grímsá. Mynd úr safni.
Veitt í Grímsá. Mynd úr safni. mbl.is/Einar Falur

Hæstiréttur Íslands hefur samþykkt að taka fyrir mál Ingibjargar Pálsdóttur og Fossatúns ehf. gegn Veiðifélagi Grímsár og Tunguár.  

Krafa Ingibjargar og Fossatúns ehf. beinist að því að veiðifélaginu verði gert óheimilt að selja veiðihús félagsins á leigu til gisti- og veitingahúsarekstrar utan veiðitímabils.

Ingibjörg er eigandi jarðarinnar Fossatúns en jörðinni fylgir veiðiréttur í Grímsá. Ingibjörg rekur þar ferðaþjónustu í nafni Fossatúns ehf.

Í málinu vegast því á hagsmunir aðila veiðifélagsins af því að eignum veiðifélagsins sé ráðstafað á hagkvæman hátt og hins vegar hagsmunir Ingibjargar af því að veiðihús félagsins sé ekki nýtt í samkeppnisrekstri við hennar eigin rekstur. 

Mögulegt fordæmisgildi

Ingibjörg er skyldug til að vera aðili að veiðifélaginu samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006. Er því kominn upp sú sérkennilega staða að hún er að höfða mál gegn veiðifélagi sem hún er sjálf aðili að.

Samkvæmt arðskrá frá 2012 fyrir Veiðifélagið Grímsá og Tunguá er fasteignin Fossatún með 241 einingar af 10.000 í veiðifélaginu.

Lítur Hæstiréttur svo á að dómur í málinu kunni að hafa fordæmisgildi um stjórnarskrárvarin réttindi sem felast í félagafrelsi og samþykkti rétturinn því að taka málið fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert