Birgir Már Björnsson, hæstaréttarlögmaður á LEX lögmannsstofu og kennari í skuldaskila- og eignarrétti við Háskólann í Reykjavík, segir réttmætt tilefni til þess að foreldrafélög í leik- og grunnskólum í Reykjavík beiti lagalegum rétti sínum á grundvelli upplýsingalaga og óski eftir öllum úttektarskýrslum á skólahúsnæði barna sinna síðastliðin átta ár, á netfanginu upplysingar@reykjavik.is.
Kemur þetta fram í aðsendri grein Birgis sem birtist í ViðskiptaMogganum í dag, sem ber heitið „Kosningaréttur barnanna“. Telur hann tilefni til þessa miðað við ástandsúttekt Reykjavíkurborgar og fjölda dæma um skemmdir á skólahúsnæði á liðnum árum.
„Við þær aðstæður þegar uppi er grunur um heilsuspillandi skólahúsnæði barna njóta foreldrar lagalegs réttar samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2002 til þess að fá fram allar upplýsingar sem það kunna að varða. Verandi foreldri og með ágætis þekkingu á lagalegum rétti beindi ég sjálfur erindi til Reykjavíkurborgar vegna skólahúsnæðis minna barna,“ skrifar Birgir. Segir í kjölfarið:
„Þau gögn, sem eftir töluverða eftirfylgni voru afhent, staðfestu að skólahúsnæðið var ekki bara verulega skemmt í dag, heldur hafði það verið svo með vitneskju Reykjavíkurborgar í töluverðan tíma, án þess að við því hefði verið brugðist. Unnið er í dag að brýnustu viðgerðum viðkomandi húsnæðis, ekki fyrir sakir áhuga borgarinnar, heldur eftir háværar kröfur foreldra.“
Að lokum segir Birgir að upplýsingar á borð við úttektarskýrslur skólahúsnæðis komi líklega til með að leiða til kosningaréttar barnanna í reynd.