Löggjöfin fyrir virkjanir eins og snákaspil

Horft yfir Hellisheiðarvirkjun.
Horft yfir Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/RAX

Taka verður til í íslenskri löggjöf svo að fleiri valkostir geti staðið til boða, til að mæta aukinni raforkuþörf. Þetta sagði Geir Arnar Marelsson, forstöðumaður lögfræðimála hjá Landsvirkjun, á raforkuráðstefnu sem haldin var í dag.

Kynnt var ný stöðuskýrsla stjórnvalda þar sem fjallað er um helstu áskoranir í orkumálum með vísan til áherslna og markmiða í loftslagsmálum, meðal annars um orkuskipti og orkuöryggi.

Var ráðstefnan haldin undir formerkjunum: Hvert stefnum við í raforkumálum?

Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, sagði í opnunarræðu sinni að orkuskiptin væru okkar stóra verkefni fram undan og bætti við að tíminn væri „knappur og verkefnin mörg og stór“.

Orkuþörfin hafi aukist

Geir Arnar fjallaði um aukna spurn eftir endurnýjanlegri orku sem og aukinni raforkunotkun í samfélaginu.

Ljóst sé að orkuþörf í heild hafi aukist síðastliðin ár, og fór hann yfir þá valkosti sem standa okkur til boða til að mæta þeirri þörf.

Til að þessir valkostir geti staðið okkur til boða, þá verði að taka til í löggjöf landsins, en umsóknar- og leyfisveitingaferlið fyrir nýjar vatnsafls- og jarðhitavirkjanir er að sögn Geirs langt og tímafrekt.

Líkti hann ferlinu við snákaspilið, nema án stiganna sem færi leikmenn spilsins áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert