Óvíst er um þá örðugleika sem innrás Rússa í Úkraínu gæti valdið byggingu nýs Landspítala. Þetta segir formaður fjárlaganefndar, en nefndin heimsótt vinnusvæði nýs Landspítala við Hringbraut í dag.
Fyrst átti hún fund með hluta stjórnar Hringbrautarverkefnisins og fengu gestirnir síðan leiðsögn um vinnusvæðið.
„Við vorum fyrst og fremst að kynna okkur verkefnið sem slíkt enda ný fjárlaganefnd að hluta,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.
Rætt var um mögulegt mótlæti sem gæti stafað af stríðinu í Úkraínu.
„Stríðið hefur áhrif og ekki ólíklegt að örðugleikar stafi af því, til dæmis með innflutning á stáli, sem eru ekki komnir í ljós enn þá,“ segir Bjarkey.
Framkvæmdin hefur gengið aðeins hægar en gert var ráð fyrir í upphafi. Margt hefur þar haft áhrif, til að mynda kórónuveirufaraldurinn, bætir Bjarkey við.
Hún segir einnig að spítalinn muni koma til með að breyta miklu þegar hann verður tekinn í gagnið, enda sé þetta stór framkvæmd á íslenskan mælikvarða.