PCC Bakki yrði kolefnishlutlaus

PCC Bakka Silicon. Ef útblástur þess yrði nýttur til framleiðslu …
PCC Bakka Silicon. Ef útblástur þess yrði nýttur til framleiðslu á grænu metanóli yrði kísilverksmiðjan kolefnishlutlaus. mbl.is/Hari

Landsvirkjun og þýska fjárfestingafélagið PCC SE ætla að kanna möguleika þess að nýta útblástur frá kísilmálmverksmiðjunni á Bakka við Húsavík til framleiðslu á grænu metanóli.

Enn fremur mun grænt metanól og annað rafeldsneyti koma í stað jarðefnaeldsneytis í skipum.

„Við erum reiðubúin að taka næsta skref á Bakka, fanga kolefnið sem losnar við framleiðslu okkar og nýta það til orkuskipta.

Við stefnum nú þegar að kolefnishlutleysi í rekstrinum en framleiðsla græns metanóls sem gæti nýst sem eldsneyti á skip væri merkur áfangi,“ segir Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC SE, í tilkynningu Landsvirkjunar.

Dregur úr loftslagsbreytingum

Fjöldi fjárfesta og fyrirtækja veðjar nú á að grænt metanól geti leikið lykilhlutverk í orkuskiptum skipaflotans.

PCC SE stefnir að því að kísilverksmiðja þess á Húsavík verði kolefnishlutlaus með þessum aðgerðum, en verksmiðjan á Bakka losar um 150 þúsund tonn af koltvísýringi árlega.

Aðgerðir sem þessar munu hjálpa til við að draga úr loftslagsbreytingum og hraða umskiptum í hringrásarhagkerfi.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í tilkynningunni, „Við hjá Landsvirkjun fögnum þessu tækifæri til að vinna með góðum viðskiptavini að grænni lausn. Orkuskipti eru aðkallandi og ekki síst hjá skipaflotanum. Ef við náum að nýta endurnýjanlegu orkuna okkar til að vinna grænt metanól á Bakka eru við einu skrefi nær grænni framtíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert