Heildarkostnaður ríkisins af sýnatöku vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar frá því faraldurinn hófst nemur samtals 11,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um sýnatökukostnaðinn frá Njáli Trausta Friðbertssyni á Alþingi.
Heilbrigðisráðuneytið sendi fyrirspurn til sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana um allt land til að afla upplýsinga um kostnaðinn við sýnatökurnar. Njáll Trausti spurði m.a. hver kostnaður ríkisins hefði verið vegna sýnatökupinna að meðaltali frá því faraldurinn hófst og greint milli PCR-prófa annars vegar og hraðprófa hins vegar.
„Heilbrigðisstofnanir sendu ráðuneytinu upplýsingar um meðaltalskostnað við hvert PCR-próf annars vegar og hraðpróf hins vegar. Samantekið hefur kostnaður ríkisins vegna sýnatökupinna frá því faraldurinn hófst verið 369 krónur fyrir hvert PCR-próf að meðaltali. Kostnaður fyrir hvert hraðpróf hefur verið 1.685 kr. að meðaltali fyrir hvert próf,“ segir í svarinu.
Þar kemur einnig fram að samkvæmt upplýsingum sem bárust frá heilbrigðisstofnunum hefur heildarkostnaður ríkisins vegna sýnatökupinna frá því faraldurinn hófst verið 615.005.440 krónur fyrir PCR-próf annars vegar og 389.413.072 krónur fyrir hraðpróf hins vegar.