Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út um sexleytið í kvöld vegna tveggja ferðamanna sem höfðu villst af leið í þoku við gosstöðvarnar í Geldingadölum.
Ferðamennirnir höfðu verið á gangi í sex klukkustundir en gátu komið hnitum úr farsíma til björgunarsveita þar sem símasamband náðist, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.
Tók um hálfa klukkustund að finna ferðamennina og fylgdi björgunarsveitarfólk þeim niður á bílastæði. Leitin gekk vel og voru þeir óslasaðir.