Engin þjóð komin eins langt og Íslendingar í endurnýjanlegri orku og engin hefur gert það á jafn hagkvæman hátt, segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunnar.
Þetta kom meðal annars fram í erindi Harðar á ársfundi Landsvirkjunnar í Hörpu í dag.
Hjá okkur sé endurnýjanleg orka 85% en staðan sé allt önnur víða í heiminum. Endurnýjanlega orkan er lykillinn í baráttunni í loftlagsmálum. Olía og gas þarf að minnka í orkukerfi heimsins og endurnýjanlega orkan þarf að taka stærri hlut. Hún þurfi raunar að áttfaldast.
Orkusparnaður er svo mikilvægastur með ýmsum úrræðum að sögn Harðar og það verði mikil áskorun. Í grundvallaratriðum þurfi hinn vestræni heimur að minnka orkunotkun þegar þróunarlönd vilja á hinn bóginn nota meira til að bæta lífskjör hjá sér.
Hörður fagnar mjög að fá skýra framtíðarsýn frá stjórnmálamönnum í orkumálum og loftslagsmálum og á honum mátti heyra að hann sé ánægður með grænbókina [sem starfshópur Umhverfis-orku og loftslagsráðherra setti saman]. Eftirspurnin sé hins vegar meiri en framboðið eins og sakir standa enda sé kerfið fullnýtt og það taki tíma að nýta raforku.