Gæti dregið til tíðinda í eignarhaldi Landsnets í vor

Bjarni Benediktsson (fyrir miðju) hlýðir á erindi í Hörpunni í …
Bjarni Benediktsson (fyrir miðju) hlýðir á erindi í Hörpunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að væntanlega muni draga til tíðinda varðandi kaup ríkisins á Landsneti í vor. Að minnsta kosti á þessu ári. 

Bjarni komst þannig að orði í erindi sínu á ársfundi Landsvirkjunnar í Hörpu í dag.  Í orkustefnunni sé lögð rík áhersla á að flutningskerfið verði hjá opinberum aðilum. Sé það talið grundvöllur gagnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði. 

Fyrir rúmu ári síðan var undirrituð viljayfirlýsing við Landsvirkjun, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða, um að ganga til viðræðna um kaup ríkissjóðs á hlutum félaganna í Landsneti. 

Bjarni sagði einnig að efnahagurinn sé að vænkast hratt og stórbætt afkoma Landsvirkjunnar sé fagnaðarefni en ekki síður vinnan sem býr að baki. Full ástæða sé til að hrósa starfsfólki og stjórnendum fyrir góða samningagerð. 

Nú greiði Landsvirkjun 15 milljarða arð til ríkisins og benti á að það sé tífalt meira en fyrir fjórum árum síðan.  

Bjarni lýsti þeirri skoðun sinni að tilhneiging sé hérlendis til að vanmeta grunnstoðirnar í atvinnulífinu á Íslandi.  

Einnig kom fram hjá ráðherranum að framundan séu áskoranir sem bregðast þurfi við. Auka þurfi raforkuframleiðslu um 130 MW á ári á næstu árum. 

Það séu til lausnir en ekki hafi alltaf tekist að ljúka þeim í þinginu. Það hjálpi ekki að þingið afgreiði ekki rammaáætlun frá 2013. Þá verði lítið um framtíðarsýn. 

Ef stjórnmálamönnunum sé alvara að ráðast í orkuskiptin af fullum krafti þá þurfi þeir að fara að sýna það í verki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert