Saklaus og syndlaus til himnaríkis að lokum

Ellen Svava Stefánsdóttir og sonur hennar Hrafnkell Sigurðsson.
Ellen Svava Stefánsdóttir og sonur hennar Hrafnkell Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ellen Svava Stefánsdóttir, íbúi á Hrafnistu í Reykjavík, er 100 ára í dag og bíður þess sem verða vill. „Ég hef verið með töluna 100 á heilanum að undanförnu og það er undarlegt að ná þessum aldri,“ segir afmælisbarn dagsins.

Hún fæddist í Borgarnesi en var tæplega tveggja ára þegar fjölskyldan flutti til Seyðisfjarðar þar sem hún bjó í um 16 ár. „Ég lít alltaf á mig sem Seyðfirðing enda átti ég mín bernskuspor á Seyðisfirði. Ég þekkti ekkert annað og elskaði fjöllin.“ Þegar Ellen var 11 ára fór hún fyrst til Reykjavíkur, hitti þá skyldfólk í móðurætt í fyrsta sinn og flutti síðan suður nær 18 ára. „Ég vildi kanna heiminn,“ segir hún.

„Ég hef alltaf haft gaman af því að bjástra eitthvað og við komum okkur upp sumarbústað skammt frá Kárastöðum á Þingvöllum á sérstakan máta,“ segir Ellen um áhugamálin. „Maður fór ekki í jogginggalla í gamla daga heldur klæddi ég mig upp, gekk sparibúin niður Laugaveginn með þrjá elstu synina, þar af einn í kerru, kom við í öllum búðum og bað kaupmennina að geyma kassana til næsta dags því ég ætlaði að byggja sumarbústað úr þeim. Nú hefði þetta þótt óeðlilegt og ég sett í rannsókn, en við reistum bústaðinn. Ég hef alltaf haft áhuga á rusli, gömlu drasli og kassafjölum. Sem smákrakki elskaði ég að vera í fjörunni og á öskuhaugunum.“

Ekkert raskar ró Ellenar og hún hugsar ekki langt fram í tímann. „Ég læt ekkert trufla mig, haga mér eins og mér finnst eðlilegt að vera og því verður ekki breytt úr þessu. Ég fer ekki á neinn flæking og er 100% örugg með það að ég fer til himnaríkis þegar þar að kemur, ég er ánægð með það enda saklaus og syndlaus.“

Nánar er rætt við Ellen í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert