Taumar, múlar og höfuðleður

Anna Linda Gunnarsdóttir söðlasmiður við saumavélina.
Anna Linda Gunnarsdóttir söðlasmiður við saumavélina. mbl.is/Óttar

„Hestamennskan heillaði mig sem barn. Ég hef verið lengi í sportinu og langaði að vinna við eitthvað sem tengdist því. Þar lá söðlasmíðin nokkuð beint við, úr því tækifærið bauðst,“ segir Anna Linda Gunnarsdóttir, sem starfar hjá hjá Baldvin og Þorvaldi ehf. á Selfossi. Hún er eins og sakir standa eini neminn á landinu í söðlasmíði og starfar þar undir handleiðslu Guðmundar Árnasonar sem er meistari í faginu.

Skapandi iðn

„Iðnin er skapandi og starfið fjölbreytt,“ segir Anna Linda um söðlasmíðina. Hnakkar sem lagðir eru á hesta eru nánast alfarið innflutt vara, en annað sem þarf er gjarnan framleitt hér heima. Þar má nefna tauma, höfuðleður, múla og teymingargjarðir svo eitthvað sé nefnt. Einnig töskur – litlar sem stórar – fyrir nesti eða annað slíkt sem festar við hnakkinn í útreiðatúrum eða lengri hestaferðum.

Anna Linda er Vestfirðingur að uppruna, en flutti suður fyrir margt löngu. Bóklegu greinarnar í söðlasmíðafaginu tók hún við Fjölbrautaskóla Suðurlands fyrir rúmum áratug og fór svo að vinna hjá Baldvin og Þorvaldi fyrir rúmum fjórum árum. Hefur lokið verknámstíma sínum og bíður nú eftir að komast í sveinsprófið, sem verður haldið um leið og færi gefst. Hún býr nú með sínu fólki í Flóanum, hvar þau halda hross og nokkrar kindur.

Reiðtygi eins og við þekkjum þau eru yfirleitt úr nautshúðum, sniðin til með þar til gerðum verkfærum sem fagfólk notar af leikni. „Eins og í öðrum iðngreinum þarf söðlasmiður að hafa góða tilfinningu fyrir hlutunum og kunna réttu handtökin, sem í þessu fagi hafa reyndar verið hin sömu í hundruð ára. Kannski bara alla tíð,“ segir Anna Linda og að síðustu:

Margt spennandi í hestamennskunni

„Framleiðslan er eitt en annars eru viðgerðir á reiðtygjum annars stór hluti af mínu starfi hjá Baldvin og Þorvaldi. Við finnum líka vel fyrir því þessa dagana að fólk er að byrja að ríða út, enda er daginn farið svo vel að lengja. Þá er Landsmót hestamanna á dagskránni í sumar og mjög margt er spennandi í hestamennskunni.“

Margs gætir á verkfæraspjaldi söðlasmiðsins.
Margs gætir á verkfæraspjaldi söðlasmiðsins. mbl.is/Óttar
Sprett úr spori á sunnlenkum gæðingum.
Sprett úr spori á sunnlenkum gæðingum. mbl.is/Sigurður Bogi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert