Þingfundur í dag hófst með því að Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, las upp minningarorð um Guðrúnu Helgadóttur, rithöfund, fyrrverandi alþingismann og forseta Alþingis, sem lést á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík aðfaranótt miðvikudagsins 23. mars 86 ára að aldri.
Þingmenn risu úr sætum til að minnast Guðrúnar að því loknu.
Á árunum 1979 til 1987 var Guðrún landskjörinn alþingismaður og á árunum 1987 til 1995 var hún alþingismaður Reykvíkinga. Þá var hún kjörin forseti sameinaðs Alþingis 1988 og var hún fyrst kvenna til að gegna því embætti.
Guðrún er þó ekki síður þekkt fyrir skáldsögur sínar og leikrit sem einkum voru ætluð börnum og unglingum. Skrifaði hún meðal annars bækurnar um bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna, sem komu út árið 1974, og einnig þríleikinn Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni.
Foreldrar Guðrúnar voru þau Helgi Guðlaugsson sjómaður og Ingigerður Eyjólfsdóttir húsmóðir. Hún giftist Hauki Jóhannessyni verkfræðingi árið 1957 og eignuðust þau eitt barn saman. Þau skildu tveimur árum síðar en árið 1964 giftist hún Sverri Hólmarssyni kennara. Saman eignuðust þau þrjú börn. Þau skildu árið 1983.
„Hún var margverðlaunuð fyrir bækur sínar og ávann sér sess sem þekktasti barnabókahöfundur landsins. Bækur hennar verði lengi lesnar fyrir börn og af börnum og fullorðnir munu líka lesa þær sér til yndisauka,“ sagði meðal annars í minningarorðum Birgis Ármannssonar.
„Það gustaði um Guðrúnu Helgadóttur í þingstörfum sem og öðru sem hún fékkst við á ævi sinni. Hún var hvöss í gagnrýni á það sem henni fannst ranglátt og aðfinnsluvert í samfélaginu en var jafnan ljúf í samstarfi, rösk, ósérhlífin og vinamörg,“ sagði enn fremur í minningarorðunum.