Samtals komu 107 flóttamenn frá Úkraínu til Íslands á síðustu sjö dögum og sóttu um alþjóðlega vernd. Það gerir um 15 manns á dag, en það er tæplega 80% þeirra sem sóttu um vernd hér á landi á þessu tímabili. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýrri stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra sem birt er vegna stríðsátaka í Úkraínu og komu fólks þaðan til Íslands.
Samtals hafa 726 komið til Íslands og sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi frá áramótum. Þar af hafa 397 komið frá Úkraínu frá 24. febrúar þegar innrás Rússa hófst, en þetta er fjölmennasti hópur þeirra sem hafa sótt um alþjóðlega vernd.
Næst flestir hafa komið frá Venesúela á þessu ári, eða 198 manns. Á síðustu viku fjölgaði þeim sem komu frá Venesúela um 17 talsins, eða rúmlega tvo á dag.
Það sem af er ári hefur 141 flóttamaður sem kemur frá öðru landi en Úkraínu og Venesúela sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Síðustu vikuna komu 13 manns frá öðrum löndum en þessum tveimur, en þeir sem hafa sótt um alþjóðlega vernd á þessu ári tengjast nú 27 löndum, en fyrir viku síðan var fjöldinn 23.
Í stöðuskýrslunni segir að ef sjö daga meðaltal um fjölda flóttafólks frá Úkraínu sé notað sem forspárgildi fyrir þá sem muni sækja um næsta mánuðinn, þá megi gera ráð fyrir að sá fjöldi verði um 366 til viðbótar.
Fyrir viku síðan sagði Gylfi Þór Þorsteinsson, sem stýrir aðgerðarhópi vegna komu flóttafólks frá Úkraínu, að tugir annarra flóttamanna en frá Úkraínu kæmu til landsins á hverjum degi. Miðað við þessar tölur ríkislögreglustjóra virðist sú tala verulega ofmetin, en síðustu viku hafa rúmlega fjórir komið daglega frá löndum öðrum en Úkraínu og þegar horft er til ársins í heild hafa tæplega fjórir frá öðrum löndum en Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd á degi hverjum.