50 þúsund íbúar heppileg rekstrarstærð

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. Ljósmynd/mbl.is

„Já það er margt í gangi hjá okkur,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, þegar mbl.is hafði samband við hann vegna þeirrar uppbyggingar sem fram undan er í þessu næststærsta sveitarfélagi landsins. 

Kópavogsbær tilkynnti í gær að 5.600 íbúðir muni koma á markað á næstu tveimur áratugum. Íbúum muni á sama tíma fjölga um 15 þúsund. 

„Það er allt á fullu í vesturbænum, á Kársnesinu. Nú styttist í að brúin þar muni rísa. Forsendan fyrir þéttingu byggðar þar er Borgarlínan meðal annars. Leggurinn sem kemur yfir brúna verði einn besti leggurinn í Borgarlínunni hvað varðar styttingu ferðatíma. Það þjónar auðvitað Garðabæ og Hafnarfirði einnig. Handan við brúna eru þrír af stærstu vinnustöðum landsins, háskólarnir og sjúkrahúsið,“ sagði Ármann.

„Einnig stendur mikið til í kringum Hamraborgina. Bæði í Hamraborginni sjálfri og austan við hana í Traðarreit eystri eins og við köllum hann. Hamraborgin er ein fjölmennasta skiptistöð höfuðborgarsvæðisins í dag og gæti þegar fram líða stundir orðið sú öflugasta. Í Hamraborginni og á báðum Traðarreitunum er mikil uppbygging framundan upp á einhverjar 600-700 íbúðir. Við höfum talið að með öflugum almenningssamgöngum sé þétting á þessu svæði mjög hagkvæm fyrir samfélagið.“

Hluti Smárahverfisins.
Hluti Smárahverfisins. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Auk þess gangi mjög vel í Smáranum eins og fólk hafi séð.

„Þar rísa húsin mjög hratt. Þar verða á milli 600 og 700 íbúðir og svo er komið nýtt hverfi í Glaðheimum. Hugsanlega fer að styttast í nýtt hverfi þar sem verið er að skipuleggja nýja 500 íbúða byggð í Vatnsendahvarfi. Þetta er allt á döfinni hjá okkur núna og það stendur því mikið til,“ sagði Ármann en hverf­in þar sem gert er ráð fyr­ir flest­um nýj­um íbúðum eru Kárs­nes, miðbær Kópa­vogs, Smár­inn, Glaðheim­ar, Vatns­enda­hvarf og Vatns­enda­hlíð en tvö síðast­nefndu hverf­in eru ný.

Íbúum hefur fjölgað um 8 þúsund frá 2012

Á næstu tveimur áratugum ætti íbúafjöldi í Kópavogi að fara upp í 50 þúsund en er í dag um 38 þúsund.

„Horft er til næstu tveggja áratuga en ég held þó að þessi uppbygging gæti tekið skemmri tíma. Þegar maður lítur til baka þá finnst manni ótrúlegt að það íbúum hefur fjölgað um átta þúsund í Kópavogi frá árinu 2012 án þess að við eigum neitt land. Það er í raun ígildi tveggja skólahverfa. Í þessum þéttingareitum hefur verið sjaldgæft að fólk sé að kaupa sína fyrstu íbúð og fjölgun í leikskólum og skólum hefur ekki verið alveg í samræmi við fjölgun íbúa.  En við finnum sterkt fyrir því að það sé að breytast. Við finnum meira fyrir því en árin þar á undan að við séum að fá fyrstu íbúðakaupendur inn í sveitarfélagið.“ 

Ármann segir á persónulegum nótum að sveitarfélagið hafi tekið ansi miklum breytingum frá því hann flutti í Kópavog. „Ég er minnugur þess að þegar ég flyt suður árið 1987 þá voru Akureyri og Kópavogur svipað fjölmenn sveitarfélög með í kringum 15 þúsund íbúa.“ 

Hafa ekki meira byggingaland 

Á undanförnum árum hefur verið mikið fjallað um skort á framboði á húsnæðismarkaði. Segja má að Kópavogur sé að mæta þessari eftirspurn að einhverju leyti. 

„Já við höfum gert það eftir fremsta megni og hefðum gert enn betur ef við ættum meira land. Við höfum stundum bent á að frá 1990 - 2005 risu fimm ný skólahverfi í Kópavogi: Smáraskóli, Lindaskóli, Salaskóli, Hörðuvallaskóli og Vatnsendaskóli. Þegar þessu uppbyggingaskeiði lauk þá tóku önnur sveitarfélög ekki við keflinu af Kópavogi. Það er hluti af skýringunni í mínum huga,“ sagði Ármann en þegar þeirri uppbyggingu lýkur sem hér er til umfjöllunar verður lítið sem ekkert byggingaland eftir í sveitarfélaginu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þá verður byggingaland upp urið í bæjarlandinu. Þá þyrftu menn að færa ystu mörk byggðar ef sveitarfélagið ætti að stækka meira. Ég tel hins vegar að það sé mjög gott fyrir Kópavog að horfa núna á þessi þéttingaverkefni og þá möguleika sem eru fyrir hendi. Þá verðum við orðin um 50 þúsund og ég held að það sé mjög góð rekstrarstærð.  Önnur sveitarfélög eru væntanlega í betri stöðu til að fjölga íbúum og brjóta nýtt land. Ég held að það muni frekar gerast meðfram ströndinni heldur en upp til fjalla,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert