Hæstiréttur vísaði í dag máli Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns Stundarinnar, gegn embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, frá dómi. Aðalsteinn þarf því að gefa skýrslu hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Hæstiréttur taldi Aðalstein ekki hafa heimild til að kæra frávísunarúrskurð Landsréttar til Hæstaréttar en í síðustu viku vísaði Landsréttur máli Aðalsteins frá héraðsdómi.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra boðaði í byrjun árs fjóra blaðamenn, þar á meðal Aðalstein, til skýrslutöku í tengslum við rannsókn á broti gegn friðhelgi einkalífsins í tengslum við fréttaflutning blaðamannanna af „skæruliðadeild Samherja“.
Áður en úrskurður Landsréttar var kunngjörður hafði Héraðsdómur Norðurlands eystra komist að þeirri niðurstöðu að skýrslutakan væri ólögmæt, þ.e. að óheimilt væri að fá Aðalstein til skýrslutöku sem sakborning.