Álagið hefur skilað sér í langvarandi veikindum

Ragna Gústafsdóttir sýnir hlífðarbúnað í upphafi faraldurs.
Ragna Gústafsdóttir sýnir hlífðarbúnað í upphafi faraldurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurfum að hafa fullopið og það er alltaf sama sagan; fólk er neytt í meiri aukavinnu. Þetta er orðinn vítahringur; starfsmenn þurfa að vinna meira og meira og meira og þá detta þeir sjálfir í veikindi vegna álags,“ segir Ragna Gústafsdóttir, deildarstjóri blóð- og krabbameinslækningadeildar Landspítala. Deildina bráðvantar hjúkrunarfræðinga á næstu vikum og kallar Ragna eftir því að stjórnvöld rjúfi umræddan vítahring.

Í gær sendi Landspítali út ákall til hjúkrunarfræðinga vegna stöðunnar á deildinni. Ragna segir að hún hafi fengið góð viðbrögð við því og því sé búið að manna næstu helgi en enn á eftir að manna næstu viku og helgina þar á eftir. Á þær vaktir sem eru hvað verst mannaðar vantar tíu hjúkrunarfræðinga og þrjá sjúkraliða.

„Heilbrigðiskerfið sem slíkt er í miklum vanda, alveg rosalegum vanda,“ …
„Heilbrigðiskerfið sem slíkt er í miklum vanda, alveg rosalegum vanda,“ segir Ragna. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

70 vaktir með skerta vinnuskyldu

„Það er þung staða og það er mikið álag búið að vera á starfsfólki,“ segir Ragna. Ástæðan fyrir slæmri stöðu á deildinni hennar er fjölþætt; Covid-19 veikindi, inflúensuveikindi og langvarandi veikindi í kjölfar mikils álags síðastliðin ár vegna kórónuveirufaraldursins.

„Undanfarin tvö ár hafa verið mjög þung og hér er fólk komið í langtímaveikindi, ekki bara á þessari deild heldur víða,“ segir Ragna og bætir því við að verkefnið Betri vinnutími, sem miðar að því að bæta starfsemi ríkisstofnana, vinnustaðamenningu o.fl. með því að stytta vinnutíma starfsfólks, spili einnig sína rullu í erfiðri stöðu.

„Í apríl eru margir rauðir dagar. Þá skilar hver starfsmaður miklu minni vinnuskyldu. Á minni deild eru þetta upp undir 70 vaktir í apríl sem er minni vinnuskylda vegna verkefnisins Betri vinnutími,“ segir Ragna.

„Það þarf að rjúfa þennan vítahring

Nú er þetta með betri vinnutímann það eina sem er fyrirsjáanlegt. Var ekki nægilega vel skipulagt hvað það varðar?

„Ég myndi ekki nota þau orð. Málið er að það vantar 200 hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Þó þú myndir vilja ráða þá er það bara ekkert í boði. Það kemur í ofanálag að fólk skilar færri vöktum og það bætist bara ofan á það sem vantar á spítalann í heild sinni,“ segir Ragna.

Hún kallar eftir lausn á þessum mönnunarvanda Landspítala.

„Það þarf að rjúfa þennan vítahring með einhverjum hætti og það er ekki eitthvað sem hver deild getur gert fyrir sig. Það er verk framkvæmdastjórnar og það er verk ríkisstjórnar. Því að heilbrigðiskerfið sem slíkt er í miklum vanda, alveg rosalegum vanda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert