Bjóst við minna en tíu atkvæða mun

Vilhjálmur Birgisson ásamt Aðalsteini Baldurssyni, formanni Framsýnar, og Sólveigu Önnu …
Vilhjálmur Birgisson ásamt Aðalsteini Baldurssyni, formanni Framsýnar, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, nýkjörins formanns Eflingar. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Tíu atkvæða munurinn sem var á Vilhjálmi Birgissyni, nýkjörnum formanni Starfsgreinasambands Íslands, og Þórarni G. Sverrissyni, formanni Öldunnar stéttarfélags var meiri en Vilhjálmur bjóst við.

Alls greiddu 130 þing­full­trú­ar at­kvæði af 135, sem er 93% kjör­sókn, og hlaut Vil­hjálm­ur 70 at­kvæði en Þór­ar­inn 60.

„Ég held að þetta endurspegli þann klofning sem hefur verið í hreyfingunni og er í samræmi við það sem ég hélt. Í raun og veru var þetta meiri munur en ég átti von á, þannig að ég er mjög ánægður með það traust sem þingfulltrúar sýndu mér í þessari kosningu,“ segir Vilhjálmur.

Fólk geti haldið mannlegri reisn

Spurður hvað hann hyggst leggja áherslu á sem formaður SGS segir hann sambandið vera það stærsta innan ASÍ með 72 þúsund félagsmenn á bak við sig. Helsta verkefnið liggi í því að tryggja að lágmarkslaun á Íslandi dugi fyrir nauðþurftum og að fólk geti haldið mannlegri reisn.

„Því miður þá er því eigi til að dreifa í dag og það er í mínum huga, Samtökum atvinnulífsins, okkur í verkalýðshreyfingunni og í raun og veru samfélaginu öllu til skammar að svo sé og það er verkefni sem við þurfum að einblína á,“ segir hann.

Erfiðar viðræður framundan

Komandi kjarasamningar eru lausir í október og segir Vilhjálmur ljóst að erfiðar viðræður séu framundan. Stjórnvöld, Seðlabankinn og verslun og þjónusta þurfi að koma að viðræðunum.

„Við þurfum öll að taka höndum saman þannig að við náum að tryggja hagsæld fyrir alla, ekki bara suma, eins og mér hefur fundist hafa verið hér alltof lengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka