Faraldurinn virðist vera á mjög hægri niðurleið

„Fólkið okkar er orðið svo langþreytt, það er orðin veruleg …
„Fólkið okkar er orðið svo langþreytt, það er orðin veruleg áskorun að manna hvern einasta dag,“ segir Hildur. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Slakað hefur verið á sóttvarnareglum innan Landspítala og segir formaður farsóttanefndar að miðað við fækkun innlagna og fjölda í eftirliti göngudeildar sé faraldurinn á hægri niðurleið. Enn eru tvær lykildeildir spítalans þó undirlagðar af Covid-sjúklingum og staðan á Landspítala áfram erfið, m.a. vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.

Heimsóknareglur hafa verið rýmkaðar og deildum spítalans er heimilt að hætta hólfa- og hópaskiptingu ásamt fleiru.

„Okkur hefur sýnst það á komum í göngudeildina annars vegar og innlögnum hins vegar að þetta sé svona heldur að síga niður mjög hægt,“ segir Hildur Helgadóttir, formaður farsóttanefndar Landspítala.

Slaka á vegna þess hve margir hafa þegar smitast

Hún segir að tilslakanirnar þýði ekki að Landspítali telji faraldurinn liðinn undir lok, enda er spítalinn enn á neyðarstigi. Fremur sé slakað á vegna þess hve margir hafa nú þegar smitast.

„Það hefur ekki jafn mikið upp á sig að vera með strangar heimsóknartakmarkanir, setja fólk í sóttkví, prófa það þegar það kemur yfir landamærin og þetta allt saman. Þessar reglur eru svolítið gengnar sér til húðar,“ segir Hildur.

„Það eru svo ofboðslega margir búnir að smitast og það er bara asnalegt að banna sjúklingum sem eru búnir að fá Covid að fá aðstandendur sem eru búnir að fá Covid í heimsókn.“

„Alltaf er verið að vonast til þess að við séum …
„Alltaf er verið að vonast til þess að við séum að komast í gegnum þennan skafl. Hann er náttúrulega orðinn svo ofboðslega stór og langdreginn,“ segir Hildur. Ljósmynd/Landspítali

Áskorun að manna hvern einasta dag

60 sjúklingar með Covid-19 liggja á Landspítala í dag. Stór hluti þessa hóps er mjög veikur af undirliggjandi sjúkdómum og bætir Covid-19 því gráu ofan á svart. 

Þunga stöðu á spítalanum má því enn skýra með fjölda sjúklinga með Covid-19 en einnig með veikindum starfsfólks og langvarandi álagi á það.

„Fólkið okkar er orðið svo langþreytt, það er orðin veruleg áskorun að manna hvern einasta dag,“ segir Hildur.

Starfsfólk stendur tvöfaldar vaktir

Í gær vakti Landspítali athygli á því að það bráðvantaði hjúkrunarfræðinga á bráðaöldrunarlækningadeild og blóð- og krabbameinslækningadeild næsta hálfa mánuðinn.

„Þetta er bara ofboðslegt basl og það er í raun og veru alltaf verið að biðja sama fólkið um að bæta á sig vinnu og fólk er standa tvöfaldar vaktir og vinna miklu meira en góðu hófi gegnir. Alltaf er verið að vonast til þess að við séum að komast í gegnum þennan skafl. Hann er náttúrulega orðinn svo ofboðslega stór og langdreginn.“

Aldrei nægilega vel gert í launamálum hjúkrunarfræðinga

Hvað þarf til þess að moka þennan skafl?

„Þetta er búið að eiga sér mjög langan aðdraganda. Það vantar marga hjúkrunarfræðinga, það vantar fleiri hendur, það er erfitt að mennta nægilega margt heilbrigðisstarfsfólkið vegna þess að námsplássin eru takmörkuð. Það er svo sem búið að vera fyrirsjáanlegt í mörg ár að það yrði mikil mannekla í hjúkrun.

Síðan er það líka það að launamálin hafa náttúrulega verið dálítið skringileg ef við tölum um hjúkrunarfræðinga. Það hefur verið settur á gerðardómur tvisvar sinnum, í annað skiptið í miðjum heimsfaraldri. Það er einhvern veginn aldrei nægilega vel gert þar þannig að þó að það sé mikil aðsókn í námið þá helst okkur ekkert sérstaklega vel á fólki.“

Hildur segir því lítið til ráða til skamms tíma nema að krossa fingur og vona að álagi vegna kórónuveirufaraldursins fari að linna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert