Kosning til stjórnar Starfsgreinasambands Íslands (SGS) fer fram á þingi sambandsins á Akureyri í dag. Samkvæmt Flosa Eiríkssyni, framkvæmdastjóra SGS, er mikil spenna fyrir kosningunum. Hann vonast hann til að allir gangi sáttir frá þinginu í dag er niðurstöður verða ljósar.
„Það er spennandi að fara kjósa hér forystu. Björn er búinn að sitja óumdeildur í tólf ár og hefur verið sjálfkjörinn öll þau ár. Svo að þetta eru miklar breytingar. Auðvitað sækja menn þessar kosningar fast, eins og á að vera. Það er öllum stórum hreyfingum hollt að takast á um menn og málefni. Svo verðum við klukkan tólf á morgun býsna sammála allt og förum saman í þetta.“
Alls hafa 135 þingfulltrúar frá 19 stéttarfélögum kosningarétt, þar af eru 62 frá Eflingu sem er langstærsta félagið að sögn Flosa.
Kosning til formanns fer fyrst fram og hefst klukkan hálf ellefu. Tveir hafa gefið kost á sér, þeir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags.
Framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en stuttu áður en atkvæði eru greidd og geta nýir frambjóðendur því enn bæst við hópinn. Þar sem að kosningin er rafræn er búist við niðurstöðu skömmu eftir að hún hefst.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er mikil undiralda á þinginu og skiptast þingfulltrúar í tvær fylkingar.
Óhætt er að segja að mikil átök hafi átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar síðustu mánuði. Það sást einna best í nýyfirstöðnu formannskjöri Eflingar, en Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi og verðandi formaður stéttarfélagsins Eflingar, er meðal annars stödd á þinginu. Hún hefur gefið út að hún styðji Vilhjálm til formanns.
Eftir að niðurstöður úr formannskjörinu liggja fyrir verður varaformaður kosinn. Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, hefur ein boðið sig fram.
Að lokum er sjö manna framkvæmdastjórn kjörinn. Enginn hefur opinberlega gefið kost á sér í stjórn en að sögn Flosa hafa honum borist nokkur framboð, hann vildi þó ekki gefa þau upp. Hann sagðist þó eiga von á að framboðin yrðu um tíu talsins.
Í dag verða ýmsar ályktanir afgreiddar. Flosi segir mikinn samhljóm vera meðal þingfulltrúa og í því sé mikill sóknarhugur.
„Við höfum átt mjög góðan dag í dag að ræða kjaramál í víðasta skilningi, áherslur okkur núna í kjarasamningunum og hvernig við ætlum að sækja fram fyrir okkar fólk. Í því hefur verið mikill samhljómur.
Það er sóknarhugur í mönnum. Menn ætla að sækja þær kjarabætur sem við teljum að við eigum inni. Það er samstaða um að krónutöluhækkanir nýtist okkur langbest.“