Borgið þeim eins og þær séu karlmenn

„Ætla þau að fara að setja þennan verðmiða á íslensk …
„Ætla þau að fara að setja þennan verðmiða á íslensk mannslíf?“ spyr Guðbjörg og vísar til stjórnvalda sem hún telur að þurfi að hækka launin. mbl.is/Sigurður Bogi

Formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir Landspítala aldrei hafa staðið eins illa og að aldrei hafi verið jafn erfitt að manna vaktir. Sífellt fleiri hjúkrunarfræðingar ákveða að nú sé komið gott af stanslausu álagi og leita á önnur mið. Lausnin á vandanum? Nú, að borga þessari stóru kvennastétt eins og þær séu karlmenn, segir formaðurinn, Guðbjörg Pálsdóttir.

mbl.is fjallaði í gær um áberandi slæma stöðu á Landspítala vegna manneklu, og ef við segjum bara hlutina eins og þeir eru þá er sú mannekla í raun kvenekla þar sem verulegur skortur er á starfskröftum hjúkrunarfræðinga, sem eru langflestir kvenkyns.

Guðbjörg telur einmitt að staðan nú eigi rætur að rekja til kyns, það er að segja kynbundins launamuns.

„Það eru vísbendingar um að það sé um kynbundinn launamun að ræða á milli kvenna- og karlastétta með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi.“

Mikilvægi hjúkrunarfræðinga hefur komið sérstaklega vel í ljós í kórónuveirufaraldrinum.
Mikilvægi hjúkrunarfræðinga hefur komið sérstaklega vel í ljós í kórónuveirufaraldrinum. Ljósmynd/Landspítali

Yfirvöld standi keik á meðan staðan hafi aldrei verið jafn slæm

Vísbendingar eru t.a.m. um að staðan sé sú innan Landspítala en 55 til 65% allra hjúkrunarfræðinga landsins starfa þar. Á spítalanum hafa orðið mörg andlát vegna Covid-19 að undanförnu en öllum sóttvarnaaðgerðum úti í samfélaginu var aflétt fyrir rúmum mánuði síðan.

„Yfirvöld standa bara keik og segja að Covid sé búið á meðan spítalinn er á hliðinni og hefur aldrei staðið eins illa þessi tvö ár,“ segir Guðbjörg.

Hún bendir á að í upphafi kórónuveirufaraldursins hafi tæplega 300 hjúkrunarfræðingar boðið fram aðstoð sína í bakvarðasveit. Það gefur til kynna að fjöldi hjúkrunarfræðinga „séu þarna úti“, þ.e. í störfum utan heilbrigðiskerfisins, í það minnsta hins opinbera.

„Það þýðir ekki að segja að það sé skortur á hjúkrunarfræðingum á alþjóðavísu. Við vitum það manna best en hér höfum við þó fólk til þess að starfa inn í kerfinu og ekki erum við að mennta hérna hjúkrunarfræðinga út í þjóðfélagið í önnur störf.“

Veruleg mannekla er á Landspítala sem stendur og segir Guðbjörg …
Veruleg mannekla er á Landspítala sem stendur og segir Guðbjörg að staðan hafi aldrei verið jafn slæm. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það þarf að borga verulega mikið hærri laun

Tveggja ára ofboðslegt álag á heilbrigðisstarfsfólki er farið að segja til sín og hefur það m.a. skilað einhverjum heilbrigðisstarfsmönnum langvarandi veikindum sem verður þá til þess að enn færri hendur þurfa að sjá um álagið. Spítalinn hefur greitt starfsfólki álagsgreiðslur í kórónuveirufaraldrinum en Guðbjörg segir að það nægi alls ekki.

„Það þarf að borga verulega mikið hærri laun fyrir fulla vinnu. Það er svo skrýtið að í þessu þjóðfélagi, með þessa stóru kvennastétt skuli ekki gilda lögmálin um framboð og eftirspurn en það gerir það oft í öðrum greinum.“

Fjölþjóðlegar millilandarannsóknir sýna fram á að ef hjúkrunarfræðinga vantar inn í heilbrigðisþjónustu sé öryggi sjúklinga ógnað sem og gæðum þjónustunnar. Það leiðir til fleiri andláta, aukaverkana, fleiri sýkinga o.sfrv. Vinnuhópar hafa verið stofnaðir hérlendis og skýrslur skrifaðar um ástandið á undanförnum árum til þess að finna lausn.

„Allar skýrslur bera að sama brunni. Það þarf að fá hjúkrunarfræðinga til starfa sem eru ekki að vinna hjá Landspítala lengur og halda hinum í starfi,“ segir Guðbjörg. Til þess að gera það er nokkuð ljóst, að hennar mati, að hækka þarf launin og útrýma hinum kynbundna launamuni.

„Til þess að fá inn fólkið, þessa tæplega 300 hjúkrunarfræðinga sem voru í bakvarðasveitinni: Borgið þeim mannsæmandi laun eins og þær væru karlmenn. Ef stjórnvöld þurfa að líta þannig á hjúkrunarfræðinga til þess að þetta gangi upp þá þarf það svo að vera. Annars sitja þau uppi með handónýtt heilbrigðiskerfi. Ætla þau að fara að setja þennan verðmiða á íslensk mannslíf?“

Taka þriðja gerðardóminn ekki í mál

Guðbjörg sættir sig ekki við fleiri skýrslur. Það eina sem hún sér í stöðunni er að launin séu hækkuð.

Kjarasamningar losna á næsta ári. Í tvígang hafa verið settir gerðardómar á kjarasamninga hjúkrunarfræðinga en Guðbjörg segir útilokað að hjúkrunarfræðingar sætti sig við þann þriðja.

„Það er alltaf látið eins og Landspítali þurfi að gera betur og leysa þetta innan frá. Hann leysir þetta ekkert innan frá nema til þess komi verulegt fjármagn. Ef á að gera eitthvað hér í grunnlaunum hjúkrunarfræðinga þá þurfa yfirvöld að koma að því. Þetta er ekki bara Landspítalinn. Ástandið á Sjúkrahúsinu á Akureyri hefur líka verið mjög slæmt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert