Brutu ýmsar settar reglur

Bergþór Pálsson, skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, Jóna Símonía Bjarnadóttir, forstöðukona Byggðasafns …
Bergþór Pálsson, skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, Jóna Símonía Bjarnadóttir, forstöðukona Byggðasafns Vestfjarða, Finney Rakel Árnadóttir frá byggðasafninu og Albert Eiríksson, sem á hugmyndina að sýningunni.

Sögusýning um Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði hefur verið opnuð í húsakynnum Tónlistarskóla Ísafjarðar en þar var húsmæðraskólinn starfræktur frá 1948-90. Hann var stofnaður 1912. 

Þegar Húsmæðraskólinn Ósk lagðist af árið 1990 var allt sem tengdist starfsemi hans hreinsað út úr húsnæðinu við Austurveg á Ísafirði, þar sem Tónlistarskóli Ísafjarðar er núna, og fært í geymslu í Hnífsdal.

Fljótlega eftir að Albert Eiríksson flutti vestur ásamt eiginmanni sínum, Bergþóri Pálssyni, sem er skólastjóri tónlistarskólans, fór hann að gera sér grein fyrir því að ýmsum sem höfðu tilfinningaleg tengsl við húsmæðraskólann þótti þetta miður enda sagan löng og merkileg.

Prúðbúnar stúlkur við veisluborð í Húsmæðraskólanum Ósk.
Prúðbúnar stúlkur við veisluborð í Húsmæðraskólanum Ósk. Ljósmyndasafn Ísafjarðar

„Það var ekkert sem minnti á þessa sögu í húsinu, sem var synd, og þess vegna kom upp sú hugmynd hvort ekki væri sniðugt að setja upp sýningu sem helguð væri þessum merkilega skóla,“ segir Albert. Hugmyndin mæltist vel fyrir og að sýningunni, sem opnuð var á fimmtudaginn, stendur Byggðasafn Vestfjarða.

Stórmerkileg saga

Á sýningunni getur að líta margvíslega muni, svo sem skólaspjöld, húsgögn, potta og pönnur, vefnað og önnur verk nemenda.

Húsmæðraskólinn Ósk var starfræktur í þessu húsi við Austurveg frá …
Húsmæðraskólinn Ósk var starfræktur í þessu húsi við Austurveg frá 1948-90. Ljósmyndasafn Ísafjarðar

„Það er ekki bara húsmæðraskólinn hérna fyrir vestan, saga þessara skóla er stórmerkileg út um allt land,“ segir Albert. „Margar konur eiga hlýjar og góðar minningar frá tíma sínum í þessum skólum enda var fjör í ungdómnum þá ekkert síður en nú. Stúlkurnar kallaðar „vetrarhjálpin“ hérna í bænum og strákarnir biðu í röðum fyrir utan. Margar af þessum stúlkum settust hér að og giftust en sumar hverjar komu um langan veg. Margar þeirra voru að fara að heiman í fyrsta sinn. Mikil virðing fylgdi því að fá inni á svona skóla og mikils var vænst af nemendum.“

Með blik í auga

Hann segir konur gjarnan minnast þessa tíma með blik í auga og vonar að sýningin komi til með að draga miklu fleiri sögur fram í dagsljósið. „Við höfum heyrt margt skemmtilegt, eins og t.d. sögur af því þegar farið var í andaglas. Þá reyktu þær í laumi og brutu ýmsar settar reglur eins og ungt fólki gjarnan gerir.“

Linda R. Kristjónsdóttir, Erla Aðalsteinsdóttir, Auður Yngvadóttir, Karitas Pálsdóttir og …
Linda R. Kristjónsdóttir, Erla Aðalsteinsdóttir, Auður Yngvadóttir, Karitas Pálsdóttir og Sigrún Viggósdóttir mættu á opnun sýningarinnar.

Að sögn Alberts var mikill agi á húsmæðraskólum en stúlkurnar fengu yfirleitt ekki að fara út nema í eina klukkustund á dag og áttu að vera háttaðar upp í rúm klukkan tíu á kvöldin. „Þorbjörg Bjarnadóttir frá Vigur, sem veitti skólanum forstöðu á árunum 1948 til 1986, byrjaði alla daga á morgunsöng, Við freistingum gæt þín, Ó þá náð að eiga Jesúm og annað slíkt ómaði þá um húsið.“

Sýningin er ótímabundin og verður opin alla vega fram á vorið á skólatíma. Lokað verður um helgar, nema laugardaginn fyrir páska enda von á fjölda gesta í bæinn þá helgi út af tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður. Albert hvetur útskriftarhópa til að koma saman og vonast vitaskuld til að sjá sem flesta.

Nánar er fjallað um Húsmæðraskólann Ósk í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert