AFP-fréttaveitan greinir frá því að síðasta hvalveiðafyrirtæki Íslands hyggi á veiðar í sumar, í fyrsta sinn frá árinu 2018. Greint var fyrst frá þessum áætlunum í Morgunblaðinu á miðvikudag.
Í umfjöllun veitunnar er tekið fram að Ísland, Noregur og Japan séu einu ríki heimsins sem enn leyfi veiðar í atvinnuskyni.
„Ég get staðfest að við hyggjumst fara á sjóinn í sumar,“ hefur AFP eftir Kristjáni Loftssyni, forstjóra Hvals hf.
„Hvalirnir eru að bíða eftir okkur,“ bætir hann við.
Í samtali við Morgunblaðið í dag kveðst Kristján reikna með að veiðarnar hefjist í júní og standi fram í september, eftir því sem veður leyfir.
Reiknað er með að um 150 manns starfi á hvalveiðiskipunum, í hvalstöðinni í Hvalfirði og í vinnslu fyrirtækisins í Hafnarfirði. Þar er hluti afurðanna unninn og frystur.