„Það sem að ég set kannski spurningarmerki við núna og er svolítið erfitt að svara því þær upplýsingar eru einfaldlega ekki komnar fram er hverjir keyptu á þessu verði,“ segir Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, um bankasöluna sem fór fram í vikunni.
Í vikunni seldi ríkið 22,5% af heildarhlutafé Íslandsbanka. Söluverðið var 117 á hlut þegar markaðsgengi var 122 á hlut og var hlutur ríkisins því seldur með 2,25 miljarða afslætti.
Salan hefur mætt talsverðri gagnrýni og er hún til umræðna hjá Páli Magnússyni í Dagmálum og eru þau Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Kristrún Frostadóttir viðmælendur Páls að þessu sinni.
Um ástæðuna fyrir því að þessi afsláttur sé gefinn á varningi sem var umfram eftirspurn segir Óli Björn:
„Þegar talað er um vöru umfram eftirspurn þá er það auðvitað í samhengi við það verð sem var í boði, þannig að þetta er ekki alveg svona einfalt. Þetta er auðvitað eðlilegur framgangsmáti á viðskiptum af þessu tagi, þegar að menn eru að bjóða út stóran hlut. Þetta er töluvert lægri afsláttur heldur en viðgengst til dæmis í öðrum löndum.“
Hvort staðið hafi verið rétt að sölunni, og hvort þessi afsláttur sé eðlilegur, segir Kristrún að henni þyki fullkomlega eðlilegt að fólk velti þessu fyrir sér.
„Það auðvitað situr í fólki salan síðasta sumar. Auðvitað er hægt að vera vitur eftir á og tala um að fólk hafi ekki þekkt stöðuna, en staðreyndin er hins vegar sú að það munaði umtalsverðu á því gengi sem var selt á og því sem að síðar kom, það er hækkun markaðsverðs. Og ég held að það sé svolítið það sem einkennir viðbrögð fólks við sölunni núna.“
Kristrún setur spurningarmerki við hverjir keyptu á þessu verði, en hún segir að forsendan fyrir slíku tilboðsferli er sú að fá aðila sem eru að taka stóran hluta og eru með því að taka markaðsáhættu.
Páll nefnir til sögunnar samtal sem hann átti við einn sérfræðing innan lífeyrissjóðakerfisins, en samkvæmt honum hafi að minnsta kosti einn lífeyrissjóður gert tilboð í þessi bréf á markaðsgengi og vildi kaupa fyrir um 12 milljarða. Þessu tilboði hafi verið hafnað og var þessum sama aðila selt fyrir um 3 milljarða á genginu 117 krónur. Aðspurður hvað honum finnist um þetta og hvort þetta teljist til eðlilegra viðskiptahátta segir Óli Björn að það sé ekki sanngjarnt að hann svari fyrir þetta. Óli Björn segir í lokin:
„Allt ferlið hefur verið með þeim hætti að ég get ekki annað heldur en glaðst og sagt að vel hafi tekist til. Það getur vel verið að einhverjir hnökrar hafi einhverstaðar verið, en í heildina er þetta vel heppnuð aðgerð.“