Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrum forseta lýðveldisins, um stríðið í Úkraínu hafa mætt talsverðri gagnrýni og eru þau til umræðu hjá Páli Magnússyni í Dagmálum. Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, voru viðmælendur Páls að þessu sinni.
Ummælin lét Ólafur Ragnar falla í Silfrinu í síðustu viku. Þau voru eftirfarandi:
„Kannski ættum við að líta á nýjan hátt á þessar kenningar sem urðu ekki ofan á, því sú lína sem varð ofan á var; stækkum NATO, tökum fleiri lönd inn og niðurstaðan af því er þetta hræðilega stríð.“
Um umrædda yfirlýsingu sagði Kristrún:
„Mig grunar það að tilgangur skilaboðana hafi kannski verið sá að við þurfum auðvitað að hugsa til framtíðar hvernig við eigum við Rússland.“
Hún sagði að þær skoðanir sem við höfum á þeim manni sem þar stjórnar og þeim hrottafengna atburði sem er núna í gangi leysi ekki vandamálið til langs tíma hvernig við störfum með Rússlandi. Stóra spurningin sé hvernig áframhaldandi samskiptum verði hagað til framtíðar við Rússland.
„Mér fannst þetta dapurlegt. Mér finnst það dapurlegt að það sé viðhorf hér hjá áhrifamanni í íslenskri pólitík til áratuga að það sé hægt að finna einhverja skýringu á því að ofbeldisfull stjórnvöld virði að vettugi sjálfstæði og fullveldi ríkis með því að gera innrás, að það kunni að vera einhversstaðar annarra skýringa að leita en hjá viðkomandi hrottum,“ sagði Óli Björn.
„Okkur ber hreinlega skylda til þess að gera það sem á okkur valdi stendur til þess að styðja við þær þjóðir sem verða fyrir barðinu á því að þeirra fullveldi sé ógnað,“ sagði Óli Björn ennfremur í Dagmálum.