„Ég er nú ekki besta manneskjan til að segja frá því kannski, þar sem ég var ekki með þeim þegar þær settu flöskuskeytið á flot,“ segir Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir lögmaður í samtali við mbl.is, en umræðuefnið er flöskuskeyti sem Agnes Elín Davíðsdóttir, dóttir hennar, og Ísabella Embla Steinþórsdóttir, vinkona dótturinnar, vörpuðu í saltan sæ í sumarfríi í Flatey á Breiðafirði í ágúst 2020.
Fjölskylda Ísabellu á hús þar í eynni og dvöldust þær vinkonurnar þar síðsumars fyrir hálfu öðru ári. „Nú, svo bara í takt við þessa stemmningu sem er í Flatey, þar sem varla má láta sjást til sín talandi í síma, fá þær þessa hugmynd að setja á flot flöskuskeyti,“ segir Ásta Sóllilja frá, og í gær dró heldur betur til tíðinda á Facebook þegar Silvurlýn Breiðaskarð, heilsuhjálpari hjá Gøtubrá, eins og hún er titluð á samfélagsmiðlinum, birti þar frásögn af fundi flöskuskeytisins úr Flatey.
„Hetta er fyrstu ferð, at eg havi funnið ein fløskupost,“ ritar Silvurlýn á síðu sína. „Var túr við hundinum, og fann eina fløsku liggjandi norðiri við Vónina í Fuglafirði. Tað vísir seg, at 2 gentur í Íslandi hava skrivað postin. Onki dato stendur á brævinum, so hvussu gamal fløskuposturin er, er ikki til at vita,“ heldur frásögn Færeyingsins áfram, hér miðlað óþýddri í þeirri trú að mál frændfólksins verði Íslendingum ekki þrándur í götu.
„Reyndar hafa fleiri en einn haft samband við mig vegna málsins,“ heldur Ásta Sóllilja áfram, hún hafi fengið eitt símtal, en í framhaldinu hafi íslensk kona sent henni skilaboð gegnum Facebook og spurt hvort verið gæti að dóttir hennar væri annar aðstandenda skeytisins. Sú kona á færeyskan mann og hafði þannig komist á snoðir um örlög flöskuskeytisins sem fjöldi Færeyinga hefur tjáð sig um í spjallþræðinum hjá Silvurlýn.
Ásta Sóllilja skrifaði svo sjálf athugasemd við færslu Færeyingsins og kvaðst vera móðir annarrar stúlkunnar og hafði mbl.is samband við hana með þær upplýsingar að vopni. „Agnes Elín sá þessa flösku og fannst hún minna sig á flöskur sem hún hafði séð með flöskuskeytum úr teiknimyndum og bíómyndum og þannig fæddist hugmyndin hjá þeim,“ segir móðirin að síðustu. Kveikjan þarf ekki að vera flóknari að frumlegum bréfaskriftum við Færeyinga eða aðrar þjóðir.