Íslendingar björguðu rekstrinum

Birgir Thorsteinsson Rijssel við aðra bifreiða sinna sem hann notar …
Birgir Thorsteinsson Rijssel við aðra bifreiða sinna sem hann notar við akstur ýmissa viðskiptavina um Holland og nágrannalöndin. Litlu munaði að reksturinn steytti á skeri í faraldrinum en viðskipti frá Íslandi riðu baggamuninn á ögurstundu. Ljósmynd/Aðsend

„Hér hrundi náttúrulega allt hjá mér þegar lokanirnar skullu á í mars 2020, hvorki ferðamenn fengu að koma hingað né viðskiptafólk. Allt varð dautt í bransanum hjá mér alveg um leið, og engan stuðning var að fá frá ríkinu nema bara einhverja tíkalla.“ Þetta segir Birgir Thorsteinsson Rijssel, íslenskur lífvörður og einkabílstjóri í Hollandi, sem sá fram á að lepja dauðann úr skel svo lengi sem kórónuveiran héldi sínu heljartaki á heimsbyggðinni.

Ræddi Birgir við mbl.is fyrir réttum tveimur árum, þegar ósköpin voru rétt að byrja, og kvaðst þá geta lifað út maímánuð. Birgir tórir þó enn og þakkar það engu öðru en íslenskri samstöðu og hjálpsemi á ögurstundu.

„Ég sá fram á að þetta yrði ekki langlíft hjá mér og spariféð myndi klárast mjög fljótt,“ heldur Birgir áfram, í samtali við mbl.is nú um helgina, en hann er sjálf­stæður at­vinnu­rek­andi með tvo bíla þótt hann vinni einnig töluvert með fyrr­ver­andi vinnu­veit­anda sínum, fyr­ir­tæki sem heit­ir Doelen Coach/​Doelen Verkuil Groep.

Þegar öll sund Birgis virtust vera að lokast fékk hann hins vegar símtal sem kom á hárréttum tíma. Á hinum endanum var Láretta Georgsdóttir hjá flugfélaginu Atlanta sem lumaði á kærkomnum verkefnum. „Hún bauð mér að annast akstur með flugmenn og flugvirkja félagsins hér á svæðinu í stað belgíska fyrirtækisins sem Atlanta skiptir almennt við,“ segir Birgir frá og kveðst eiga flugmönnum og flugvirkjum fyrirtækisins, sem hann hafði ekið með fyrir heimsfaraldurinn, mikið að þakka, en þeir hafi mælt með honum í verkefnið.

Átti fyrir reikningunum

„Þetta var heldur betur redding fyrir mig og ég stend í mikilli þakkarskuld við Air Atlanta fyrir að velja íslenskt,“ segir Birgir alvörugefinn, enda var hann kominn á heljarþröm í rekstri sínum á tímabili og fékk, eins og fyrr segir, nánast enga aðstoð frá hinu opinbera þar sem eiginkona hans, hin súrínamska Marcia Patricia Rijssel, var og er enn í fullri vinnu. Birgir var því ekki talinn eiga um nægilega sárt að binda auk þess sem hann er sjálfstæður atvinnurekandi og kemur því fyrr að læstum dyrum en launþegar.

Birgir býður sínum viðskiptavinum upp á íslenskt vatn sæki þorsti …
Birgir býður sínum viðskiptavinum upp á íslenskt vatn sæki þorsti að þeim við akstur milli funda og annarra viðburða. Ljósmynd/Aðsend

„Ég fékk það mikil viðskipti með þessum hætti að ég gat haldið áfram að borga reikningana eftir að allt sparifé var búið,“ segir Birgir og kveður Atlanta ekki hafa staðið eitt íslenskra fyrirtækja að því að koma honum á loft í faraldrinum, því einnig hafi óvæntur meðbyr úr húsgagnabransanum fyllt segl hans.

„Gauti [Reynisson] í [húsgagnaversluninni] Betra baki hringdi í mig og spurði um stöðuna hjá mér. Hann sagði mér svo í framhaldinu, eftir að ég hafði sagt honum af mínum högum, að hann myndi þá framvegis sleppa fluginu til Lúxemborgar og láta mig keyra sig héðan frá Amsterdam og þangað og svo ná í hann aftur,“ segir Birgir, en Gauti er einnig með umsvif í Lúxemborg, rekur þar húsgagnaverslunina Dorma Home auk skóverslunarinnar Kosy og er því mikið á ferðinni milli Íslands og viðskiptastöðva sinna á meginlandinu.

Stefnir í besta apríl nokkru sinni

Eðlilega hlýnar Birgir um hjartarætur yfir þessum stuðningi landa sinna, en hann hefur verið búsettur í Hollandi síðan skömmu fyrir aldamót og býr nú í Hoofddorp rétt utan við Amsterdam ásamt fjölskyldu sinni. Þau Marcia eiga tvö börn, 19 og 25 ára, auk þess sem Birgir, sem verður 56 ára í apríl, á tvö börn og tvö barnabörn á Íslandi.

Birgir hélt sér á floti gegnum veirutíma og kveður hollenskt …
Birgir hélt sér á floti gegnum veirutíma og kveður hollenskt samfélag nú lifna hratt við, bókanir hjá honum í apríl séu fleiri en nokkru sinni í þeim mánuði. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir allt vera að lifna við í Hollandi nú, eins og annars staðar í heiminum, eftir tvö löng ár undir járnhæl kórónuveirunnar. „Fyrir viku byrjuðu ferðamenn að streyma inn og viðskiptalífið er að fara í gang núna svo það er mikill akstur frá einkaflugvöllum og það sem við köllum „roadshow“, það er akstur með viðskiptamenn sem fara frá einum fundi á þann næsta,“ útskýrir Birgir og kveður landið rísa hratt.

„Mars er svipaður núna og venjulegur marsmánuður en svo eru að koma inn bókanir fyrir apríl sem benda til þess að hann verði miklu stærri en við höfum nokkurn tímann séð áður,“ heldur Birgir áfram og segir stemmninguna meðal hinna hollensku fína, Mark Rutte forsætisráðherra hafi gefið það út að frá og með næstu viku verði öllum sóttvarnahömlum aflétt, en enn sem komið er þurfi fólk að sýna fram á neikvætt veirupróf þegar stærri viðburðir eru sóttir, svo sem fjölmennir tónleikar.

Birgir og fjölskylda merkt KSÍ í bak og fyrir þegar …
Birgir og fjölskylda merkt KSÍ í bak og fyrir þegar leikur Íslands og Argentínu fór fram hér um árið. Ljósmynd/Aðsend

Birgir segist því sjá fram á mjög gott sumar 2022 þegar akstur hans með erlenda gesti kemst í fyrra horf á ný, þótt hann játi að fátt sé svo með öllu illt að því fylgi ekki eitthvað jákvætt. „Maður er orðinn miklu nánari fjölskyldunni núna eftir faraldurinn, þegar maður er búinn að vera svona mikið heima,“ segir Birgir Thorsteinsson Rijssel, lífvörður og einkabílstjóri í Hollandi, að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert