Komst upp á síðustu andardráttunum

Kafarinn Kjartan Jakob Hauksson hefur lagt sæstrengi í sjó í …
Kafarinn Kjartan Jakob Hauksson hefur lagt sæstrengi í sjó í þrjátíu ár, unnið við björgunarstörf, verið hætt kominn á hafsbotni og bjargað tveimur börnum frá drukknun. mbl.is/Ásdís

Hafið hefur heillað Kjartan Jakob Hauksson frá blautu barnsbeini en hann nýtur þess að vera bæði ofan sjávar og neðan. Við látum okkur þó nægja að vera á þurru landi og hittumst í úthverfi borgarinnar til að spjalla, með útsýni yfir Elliðavatn. Þar segir Kjartan frá ævintýrum sínum en hann hefur sannarlega migið í saltan sjó. Líka synt í honum, róið, siglt, lagt sæstrengi og kafað á botn hans! Og oft komist í hann krappan.

Einn á sjó um miðjar nætur

Kjartan er ættaður bæði frá Ísafirði og Reykjarfirði á Hornströndum, fæddur og uppalinn á Ísafirði og þaðan á hann eintómar góðar minningar.

„Æskan var frjálsleg og góð. Ég var annaðhvort úti á sjó eða niðri á bryggju frá morgni til kvölds,“ segir Kjartan.

 „Ég eignaðist svo minn fyrsta mótorbát fímmtán ára og fór að gera út. Eftir skóla lallaði ég niður á bryggju með rifil og fór út að veiða, bæði fisk og sjófugl. Þegar ég var ekki kominn heim næsta morgun fór mamma að hafa áhyggjur. Það kom alveg fyrir að ég væri einn úti á sjó langt fram á nætur,“ segir hann og segir að líklega tækju foreldrar í dag það ekki í mál að fimmtán ára unglingur væri einn úti á rúmsjó með riffil heilu og hálfu næturnar.

„Það voru aðrir tímar.“

Mjög sársaukafullt naglakul

„Ég kenndi sjálfum mér að kafa þegar ég var fimmtán ára. Ég keypti mér köfunargræjur og man að búningurinn var allt of stór. Það var alltaf gallon af ísköldum sjó sem rann fram og til baka inni í gallanum,“ segir Kjartan og brosir út í annað.

„Fyrsta árið átti ég ekki köfunarvettlinga. Ég upplifði mjög sársaukafullt naglakul einhverja klukkutíma eftir köfun, sérstaklega yfir vetrartímann,“ segir Kjartan, en hann var enn aðeins unglingur þegar hann var farinn að vinna sem kafari.

„Ég fór strax þá að vinna við það; að skera úr skrúfum,“ segir hann og segir oft mesta vesenið hafa verið að koma þungum búnaði til hafnarinnar og frá, enda var hann ekki með bílpróf.

„Þá fékk ég lánaðar hjólbörur hjá afa undir köfunargræjurnar. Foreldrar mínir voru svo sem mátulega hrifnir af þessu, en þarna byrjaði köfunarferillinn. Þarna fimmtán, sextán ára fékk ég mjög oft borgað í vodkaflöskum frá rækjusjómönnunum. Ég hefði nú frekar viljað peninginn því ég var ekkert farinn að drekka þá,“ segir Kjartan og hlær.

Lagning sæstrengja í þrjátíu ár

Rétt fyrir tvítugt fór Kjartan suður í Tækniskólann og er með bæði skipstjórnar- og vélstjóraréttindi, auk þess sem hann lærði járnsmíði.

„Ég var mikið að vinna með námi, á sjó, að smíða og í atvinnuköfun,“ segir Kjartan, en hann bjó um stund fyrir sunnan en flutti svo aftur vestur.

„Þegar ég kom aftur vestur fór ég að vinna í smiðjum en líka úti á sjó,“ segir Kjartan.

„Síðan fer vélsmiðjan á hausinn og þá tek ég bara slaginn og byrja með mitt eigið köfunarfyrirtæki,“ segir Kjartan en nokkru áður hafði fiskeldi hafist í Ísafjarðardjúpi og hann þá unnið mikið við að leggja þar lagnir og þjónusta kvíarnar.

„Árið 1991 er ég svo fenginn til að vinna að lagningu fyrsta ljósleiðarasæstrengs á landinu. Þá átti að fara að ljósleiðaravæða Ísland og ég fór á fullt við þetta í mörg ár,“ segir hann og segist þá þurfa að kanna botninn, leggja streng og fleira sem fylgir þessu sérhæfða starfi.
„Ég smíðaði mér þá kapallagningapramma og lagði sæstrengi yfir marga firði, bæði fyrir austan og vestan og milli lands og Vestmannaeyja. Ég hef haldið þessari vinnu áfram, í þrjá áratugi,“ segir Kjartan sem rekur fyrirtækið Sjótækni og er annar af eigendum þess.

Sjótækni vinnur að lagningu sæstrengja og viðhaldi þeirra, auk þess …
Sjótækni vinnur að lagningu sæstrengja og viðhaldi þeirra, auk þess sem fyrirtækið þjónustar sjóeldiskvíar og virkjanir.

„Við þjónustum líka virkjanir og fiskeldi en við erum þeir einu sem eru sérhæfðir í sæstrengjum og neðansjávarlögnum, en auk þess gerum við út sex báta.“

Finnur mig í fjöru

Árið 2003 reri Kjartan einsamall í kringum Ísland, fyrstur manna í heiminum. Reyndar þurfti hann að taka ferðina í tveimur áföngum því fyrsti báturinn brotnaði í spón á Vestfjörðum.
„Ég hafði lengi haft áhuga á róðri og komst þá að því að enginn hafði róið einsamall í kringum landið. Ég vildi bara vera fyrstur,“ segir Kjartan og lét ekki sitja við orðin tóm.

Hann lagði svo af stað einn góðan veðurdag frá Reykjavík en leiðin lá réttsælis um landið.

„Ég var búinn að vera þrjár vikur í bátnum þegar ég enda í brimsköflum á Hornströndum og brýt bátinn. Þá varð ég að hætta og græja annan og léttari bát en á honum kom ég í land eftir hvern dag,“ segir hann og segist hafa klárað ferðina árið eftir.

 „Ég hafði hent út akkerinu en svo slitnaði það og svo braut ég aðra árina; það var of hvasst til að halda mér frá landi,“ segir hann og segist hafa staðið þarna aleinn í fjörunni, blautur og kaldur og án nokkurs fjarskiptabúnaðar þegar mágur hans, Bergur Karlsson frá Bolungarvík, kom og náði í hann.

„Hann hafði fengið eitthvað á tilfinninguna og ákvað að koma siglandi að athuga með mig. Hann finnur mig þarna í fjörunni. Ég var þarna einn á báti,“ segir Kjartan og segist hafa þá synt út í bát Bergs.

„Seinna lagði ég af stað frá Bolungarvík og kláraði hringinn. Ég var 104 daga á leiðinni,“ segir Kjartan og segist hafa notið ferðarinnar.

Kjartan Jakob reri einn hringinn í kringum Ísland en síðar …
Kjartan Jakob reri einn hringinn í kringum Ísland en síðar frá Noregi til Íslands. Hann minnist ferðarinnar sem dásamlegrar vosbúðar.

„Lengsti leggurinn var frá Hjörleifshöfða og til Stokkseyrar, en það var þannig vindur og brim að ég varð að róa viðstöðulaust. Það urðu þrjátíu tímar og ég mátti ekkert stoppa; rétt í tvær mínútur á hverjum klukkutíma til að henda í mig vatni og mat. Það var erfiðasti kaflinn.“

Maður skynjar sorgina

Kafarar vinna oft við björgunaraðgerðir á sjó og því miður er raunin sú að þeir þurfa oftar en ekki að ná upp látnum eða mikið slösuðum einstaklingum. Kjartan var einna fyrstur á vettvang þegar lítil flugvél fór í sjóinn við Skerjafjörðinn 7. ágúst árið 2000, en um borð voru farþegar á leið af Þjóðhátíð. Sex manns létust af völdum slyssins.

„Þetta var fyrsta flugslysið sem ég vann að, en hafði áður verið í björgunarsveit í sautján ár,“ segir hann og segist muna vel eftir þessum degi.

„Ég átti hús við höfnina í Kópavogi og mágkona mín var úti á svölum að reykja þegar hún kemur hlaupandi inn og segist hafa séð flugvél hrapa í sjóinn. Ég fer út og sé gárur í sjónum og hleyp á inniskónum niður á bryggju þar sem ég var með vinnuprammann minn og rauk út. Þegar ég kem að er slökkviliðið að koma að á bát, og einhverjir þeirra komnir í kafarabúninga. Í sameiningu náðum við fólkinu úr sjó og komum því í land. Ég reyndi að hlúa að þeim eins og ég gat en það var auðvitað ekki auðvelt. Ég reyndi bara að hnoða og blása,“ segir Kjartan og segir ekkert þeirra hafa verið með meðvitund. Fjórir einstaklingar voru úrskurðaðir látnir stuttu síðar en tveir lifðu áfram en dóu síðar af orsökum slyssins.

„Þetta tók á. Maður skynjar svo vel sorgina.“

Næ að rífa hann upp á hárinu

Sumar sögur enda þó vel en Kjartan hefur náð að bjarga fólki frá drukknun.

„Ég var sextán ára á mótorbáti þegar ég sé krakka á bryggjunni hlaupa í burtu og heyri um leið skvettu, eins og einhver væri að detta í sjóinn. Það hafði einn lítill fimm, sex ára dottið í sjóinn. Ég hleyp upp bryggjuna og sé hann sökkva niður. Ég skelli mér á borðstokkinn á báti og fer með hausinn á kaf og aðra höndina niður á bólakaf á eftir honum. Hann var með nánast hvítt hár; mjög ljóshærður strákur, þannig að ég náði að sjá í ljósa kollinn og rétt næ að grípa í hann og ríf hann upp á hárinu. Ég hífi hann um borð og set hann á hliðina og hann losaði sig við sjóinn og fór að hágráta. Svo hljóp hann heim og ég sá að hann yrði í lagi,“ segir hann og segist hafa hringt í föður stráksins stuttu síðar til að athuga með drenginn.

„Hann sagði strákinn hafa sagt að einhver maður hefði meitt sig; togað í hárið á sér,“ segir hann og hlær.

Hugsaði til barnanna minna

Kjartan hefur oftar í lífinu komist í hann krappan og oft hefur hann aðeins verið hársbreidd frá dauðanum.

„Ég hef tvisvar verið verulega hætt kominn í köfun. Annars vegar var það þegar ég var að vinna á dráttarbrautinni á Ísafirði, að endurbyggja hana. Félagi minn var ekki alveg að fylgjast með mér en þá fraus allt dótið mitt niðri og þá soga ég bara sjó inn í hjálminn. Ég var svo þungur að ég gat ekkert synt og þurfti að labba eftir botninum og sá nánast ekkert. Ég þurfti að giska hvar stiginn væri og ég var með naflastreng í mér sem sökk og ég man að ég var svo hræddur um að hann myndi húkkast í einhverju áður en ég kæmi að stiganum. En ég komst í stigann og upp,“ segir Kjartan.

„Í hitt skiptið var ég í Berufirði að vetrarlagi og við vorum með fjarstýrðan kafbát sem festist í netadræsu sem var föst á botninum á fimmtíu metra dýpi. Þetta var seint um kvöld og myrkur og ég ákvað að fara þarna niður. Aðstoðarkafarinn minn var svo heiðarlegur að segja að hann myndi ekki treysta sér á eftir mér ef það kæmi eitthvað fyrir. Ég fór samt og festi mig strax sjálfur í netinu þarna niðri. Aðstoðarmaðurinn kallar þá til mín í símann að það sé allt frosið þarna uppi, loftdeilirinn. Ég sagði honum að reyna að ausa sjó á hann til að þíða hann. Svo allt í einu frýs allt og ég fæ ekkert loft, fastur í neti á fimmtíu metra dýpi. Ég skipti þá yfir á litla varaloftsflösku sem ég var með á bakinu og vissi að ég ætti bara um þrjár mínútur til að redda mér. Annars væri þetta bara búið. Ég náði að nýta þann tíma, hugsa skýrt og komst upp á síðustu andardráttunum,“ segir hann.

„Ég horfði bara á loftmælinn hrynja niður á meðan ég var að skera mig lausan úr netinu. Þetta var rosalega tæpt. Ég man að ég hugsaði til barnanna minna,“ segir Kjartan og segist hafa orðið varkárari með árunum.

Hugarró fyrir aðstandendur

Nýlegt flugslys á Þingvallavatni sló þjóðina en fjórir karlmenn létu lífið í slysinu. Kjartan var einn þeirra sem komu að aðgerðum á Þingvallavatni, en vélin, sem enn er í vatninu, verður tekin upp þegar ísa leysir.

Erfiðar aðstæður voru til leitar í ísköldu Þingvallavatni eftir flugslysið …
Erfiðar aðstæður voru til leitar í ísköldu Þingvallavatni eftir flugslysið en fjarstýrður kafbátur var notaður í aðgerðunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var rosa erfið aðkoma og svakalega sorglegt. Þarna lést ungt fólk í blóma lífsins, eins og í Skerjafjarðarslysinu. Séraðgerðasveit landhelgisgæslunnar fékk mig sem ráðgjafa, en við notuðum fjarstýrðan kafbát með griparmi til aðgerðanna,“ segir Kjartan og segir vatnið hafa verið erfitt á þessum tíma því það hafi frosið jafnóðum og þeir brutu ísinn. Kjartan segir slysið hafa ýft upp gamlar minningar frá slysinu í Skerjafirði fyrir meira en tveimur áratugum. Hann segir að þrátt fyrir harmleikinn sé alltaf gott að fólk fái að jarða þá látnu.

„Það er ákveðin hugarró fyrir aðstandendur að fá ástvini sína til sín. Ég hugsa enn til fólksins sem misst hefur ástvini í þessum slysum.“

Ítarlegt viðtal er við Kjartan Jakob Hauksson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka