Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður hjá Kjarnanum sem er staddur í Varsjá, varð fyrir einskæra tilviljun vitni að sögulegu ávarpi Joe Bidens Bandaríkjaforseta í gærkvöldi.
Í lok ræðu sinnar sagði Biden að Vladimír Pútín Rússlandsforseti gæti ekki verið áfram við völd í Kreml.
Afdráttarlaus ummæli forsetans vöktu mikla athygli og þóttu gefa til kynna sögulega stefnubreytingu Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi. Hvíta húsið dró úr ummælunum stttu síðar.
Arnar segist hafa verið staddur á torginu fyrir utan og að erfitt hafi verið að fá formlegan fjölmiðlapassa á viðburðinn.
„Mér var sagt að það yrði sennilega ekki mögulegt. Síðan kom bara kona frá hvíta húsinu og henti í mig miða.“
Hann segir fleiri á torginu, til að mynda úkraínskt flóttafólk sem hann hafði rætt við, einnig hafa fengið miða.
„Það var greinilega verið að fylla viðburðinn af fólki svo það væri ekki tómlegt á að líta.“
Því var um óvænta upplifun að ræða.
„Ég bjóst ekki við þessu, það var ekki á planinu að fara að horfa á Biden tala þarna í gærkvöldi. En það var voða gaman af því, þetta var ágætis ræða hjá karlinum.“
Arnar segir, spurður um stöðuna í Varsjá, að þar sé gríðarlegur fjöldi flóttamanna og samtök sem veiti fólki aðstoð.
„Það kom mér eiginlega á óvart hvað það eru rosalega mörg samtök, aðallega frá Evrópu, sem eru eiginlega bara að sækja fólk. Samtök, sem koma hérna með rútur og fylla þær af fólki, sem eru í samstarfi við borgaryfirvöld og taka flóttafólk til sinna heimkynna.“
Ekki veitir af, enda eru þúsundir flóttafólks í tímabundnum úrræðum. Það fólk viti að það þurfi á endanum að fara annað en viti ekki hvert.
„Flestir náttúrulega vona að stríðið fari að klárast svo fólk geti snúið heim sem fyrst.“