„Það var ekkert laust húsnæði“

Mikil uppbygging er þegar komin af stað í Bakkagerði á …
Mikil uppbygging er þegar komin af stað í Bakkagerði á Borgarfirði eystri og mikið er einnig í pípunum. kort/mbl.is

Undanfarin misseri hefur verið mikill gangur á Borgarfirði eystra þar sem íbúðarhús hafa verið reist, talsvert hefur verið um viðgerðir og viðhald eldri húsa, arðbæru fyrirtæki komið á laggirnar og íbúum fjölgað. Til viðbótar hafa lóðir verið skipulagðar, en á tímabili var umframásókn í lóðir og þurfi hlutkesti til að skera úr um hver fengi lóð afhenda. 

Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í byrjun árs var svo veitt vilyrði fyrir úthlutun á þremur lóðum við Bakkaveg á Borgarfirði eystri undir þrjú íbúðahús, hvert um sig 52 fermetrar að stærð.

Kemur fram í bókun ráðsins að áform umsækjenda séu til þess fallin að styðja við atvinnulíf í brothættri byggð, en það er verkefni Byggðarstofnunar um að efla byggðar í nokkrum sveitarfélögum á landinu. 

Fyrstu húsin í 10-15 ár

Eyþór Stefánsson, staðgeng­ill starfs­manns heima­stjórn­ar á Borg­ar­f­irði eystra, ræddi þennan uppgang á Borgarfirði við mbl.is, en sjálfur flutti hann á Borgarfjörð fyrir um 5-6 árum. Segir hann meðal annars frá því hvernig ákvörðun tveggja hjóna hefur breytt miklu fyrir þorpið og líka hvernig útlánastefna bankanna virkar hamlandi fyrir byggðir eins og á Borgarfirði.

Borgarfjarðarhreppur sameinaðist nágrannasveitarfélögum sínum og varð að Múlaþingi árið 2020. Eyþór segir að eitt síðasta verk hreppsins hafi verið að ákveða að byggja tvö parhús í gegnum úrræði hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Það hafi verið með fyrstu húsunum sem byggð voru á svæðinu í 10-15 ár. Húsin eru í eigu sveitarfélagsins en leigð út til fólks sem hefur þar búsetu allt árið um kring. Ákveðið hafi verið að ráðast í að byggja húsin þar sem viðvarandi skortur hafi verið á húsnæði um nokkurt skeið.

„Það var ekkert laust húsnæði,“ segir Eyþór. Rétt er að taka fram að samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 98 með skráð lögheimili á Borgarfirði, en tala yfir þá sem eru þar með fasta búsetu allt árið er líklega nær 40-60.

Hollensk kona ákvað að flytja í Bakkagerði og byggja þar …
Hollensk kona ákvað að flytja í Bakkagerði og byggja þar húsið Brim sem er fyrir neðan Álfheima.

Hollensk kona ákvað að flytja á svæðið og reisa hús

Samhliða þessu og í framhaldinu hefur að sögn Eyþórs orðið nokkur sprenging í ásókn í lóðir og að fara í framkvæmdir. Nefnir hann meðal annars að hollensk kona ákvað að flytja í plássið og byggja einbýlishús á lóð fyrir neðan Álfheima, yst við Bakkaveg. Þar hafi einnig eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Álfheima ákveðið að byggja íbúðarhús fyrir starfsfólk og önnur hjón séu búin að byggja lítið íbúðarhús sem fékk nafnið Bakkakot.

Innar við Bakkaveg var svo búið að skipuleggja tíu lóðir og þegar er búið að byggja þar hús næst veginum. Segir Eyþór að ótrúlega mikil ásókn hafi verið í lóðir og hafi sveitarfélagið lent í því í fyrsta skipti í mjög langan tím að kasta þurfti upp á hver fengi lóðir úthlutaðar. Núna sé hins vegar staðan þannig að einhverjar tilbúnar lóðir séu til staðar, bæði á Bökkum og inn í byggð.

Við Bakkaveg 0 var svo veitt vilyrði fyrir fyrrnefndum þremur íbúðarhúsum og hinu megin við götuna keypti erlendur aðili fyrir ekki svo löngu síðan húsið Bakkakot, en lét breyta nafninu í Ásgarð og þar með gátu hjónin hér að ofan nefnt sitt nýja hús Bakkakot. Gamla Bakkakot var gamalt steinhús og lét kaupandinn rífa það að mestu í sumar. Einn útveggur stendur og segir Eyþór að ljóst sé að maðurinn ætli sér að byggja þar nýtt hús, en eftir á að koma í ljós nákvæmlega hvernig það verði.

Bakkakot var rifið síðasta sumar, en nú rís þar nýtt …
Bakkakot var rifið síðasta sumar, en nú rís þar nýtt hús.

Framkvæmdir við stækkun á hótelinu

Hótelið Blábjörg hefur einnig unnið að því að stækka hótelið og búið að taka grunn fyrir stækkuninni. Þar er gert ráð fyrir 10 auka herbergjum og spa-aðstöðu. Þá hafa forsvarsmenn þess keypt gamla kaupfélagshúsið og komið þar fyrir bruggverksmiðju og framleiða þar bæði vodka og bjór. Segir Eyþór að húsið hafi þegar verið tekið í gegn að utan og unnið sé að því að taka það í gegn að innan. Stefnt sé að því að opna þar bar eða koníaksstofu.

Þegar farið er inn í það sem er kallað Byggð bætist svo við að byggt var á Tunguhóli, milli Laufáss og Borgar. Þar sé um að ræða 160 fermetra timbureiningahús sem hjónin sem reka verslunina á staðnum reist sér 160 fermetra heilsárshús. Koma þau nánar við sögu síðar í greininni.

Sjálfur á Eyþór svo lóðina Tungu þar við hlið og segir hann að horft sé til framkvæmda þar, en slíkt sé þó enn á frumstigi. Til viðbótar segir Eyþór að undanfarið hafi nokkrir bæjarbúar einnig farið í stærri viðhaldsframkvæmdir, skipt um þök og sett á klæðningar, þannig að mikið hafi verið að gerast í öllum tegundum framkvæmda í bænum undanfarið.

Hjón sem upphaflega fluttu í Bakkagerði og á Bakkaveg hafa …
Hjón sem upphaflega fluttu í Bakkagerði og á Bakkaveg hafa reist nýtt hús sem nefnist Tunguhóll, en þau reka meðal annars verslunina á staðnum.

Leigumarkaðurinn og útlánastefna bankanna

Tvennt hefur að sögn Eyþórs einkennt nokkuð íbúða- og leigumarkaðinn á Borgarfirði. Segir hann að í fyrsta lagi sé sveitarfélagið sjálft stærsti aðilinn á leigumarkaðinum og hafi meðal annars byggt síðustu tvo parhús á svæðinu.

Sveitarfélagið hafi horft til þessa meðal annars svo húsnæði á svæðinu væri sem mest í notkun fyrir fólk sem ynni þar og væri með fasta búsetu. Nokkuð væri um að fólk ætti ættir að rekja á svæðið og ætti þar hús sem væri aðallega notað yfir sumartímann, en á sama tíma hefði verið skortur á húsnæði.

Sveitarfélagið lét byggja tvö parhús, Lækjargrund og Lækjarbrekku og má …
Sveitarfélagið lét byggja tvö parhús, Lækjargrund og Lækjarbrekku og má hér sjá annað þeirra.

Ofan á þetta bættist svo að bankakerfið hefði staðið uppbyggingu á stöðum eins og Borgarfirði fyrir þrifum. Þannig væru lán út á markaðsverð, en ef markaðsverð sé undir byggingarkostnaði væri næsta ómögulegt að fá lán til að byggja. Því hafi sérstaklega verið erfitt fyrir ungt fólk að festa rætur á staðnum á meðan mestur áhugi hefði undanfarið komið frá fólki sem væri komið á seinni hluta starfsaldursins.

„Hér vantar líka fólk á barneignaraldri,“ segir Eyþór og bætir við að útlánastefna bankanna stýri fólki aðallega á heitustu staðina á landinu.

„Þetta étur í skottið á sér“

Með þessu segir hann að kerfið ýti til lengri undir samþjöppun, en að markaðurinn t.d. á Borgarfirði sé heldur ekki heilbrigður þar sem umframeftirspurn hafi verið, en fáir eða engir hafi viljað selja. Því þurfi flestir sem vilji flytja á svæðið að byggja sjálfir sem kalli á umtalsvert eigið framlag. „Ég skil að þetta er business, en þetta étur í skottið á sér,“ segir hann.

Börnin fylgja í fótspor foreldanna

Eyþór segir að þrátt fyrir að sveitarfélög vilji að jafnaði helst laða til sín fólk á barneignaraldri séu tvö mjög góð dæmi frá Borgarfirði þar sem uppkomin börn hafi fylgt foreldrum sem ákveðið hafa að flytja á staðinn og í báðum tilfellum hafi fjölskyldurnar verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið.

Þannig nefnir hann dæmi um hjón sem áttu tengingu við Borgarfjörð sem reistu hús fyrir þó nokkrum árum við Bakkaveg. Upphaflega var planið aðallega að vera þar um sumur, en svo féllu þau alveg fyrir svæðinu. Börn þeirra sem eru bæði á barneignaraldri hafi svo flutt á svæðið. Sonur þeirra hafi meðal annars keypt hús og gert það upp og dóttirin sé að gera upp með manni sínum hús sem þau búi í.

Öll starfi þau á svæðinu og það sem þorpsbúar séu líklegast þakklátastir með sé að fyrir 4-5 árum þegar loka átti versluninni hafi hjónin keypt húsið þar sem verslunin var og reka þau nú verslunina. „Og þetta er fólk sem áður var talað um sem fjarbúa,“ segir Eyþór hlæjandi og ljóst er að hann er mjög sáttur með hvernig þessi þróun hefur verið, en sjálfur flutti hann ekki á svæðið fyrr en fyrir um 5-6 árum síðan.

Eigandi Álfheima byggir íbúðahús fyrir starfsfólk fyrirtækisins við Bakkaveg.
Eigandi Álfheima byggir íbúðahús fyrir starfsfólk fyrirtækisins við Bakkaveg.

Fluttu á Borgarfjörð og stofnuðu dúnhreinsun

Eyþór bendir einnig á að fyrir nokkrum árum hafi kona að nafni Ragna Óskarsdóttir komið í heimsókn á Borgarfjörð á meðan maðurinn hennar var á hreindýraveiðum. „Svo fellur hún svona fyrir þorpinu,“ segir Eyþór.

Næst á dagskrá var að skoða húsnæði og einmitt á þeim tíma var Smáragrund auglýst til sölu. Þau kaupa þar íbúð. Segir Eyþór að hann og fleiri hafi líklegast haft efasemdir fyrst um „að einhver frá Reykjavík væri að kaupa Smáragrund. Það yrði enn eitt sumarhúsið“.

Nema hvað, þau fara að vera meira og meira á svæðinu og fljótlega er Borgarfjörður orðinn þeirrar heilsársbúseta. Svo flytur dóttir þeirra í þorpið í Smáragrund og Ragna færist sig í húsið Sjávarborg og hefur nú tekið það í gegn. Sonurinn sé einnig kominn á svæðið og fluttur í Lækjargrund. Samhliða þessu stofnar Ragna fyrirtækið Íslenskur dúnn, en hún kaupir gamla leikskólann af sveitarfélaginu og hefur þar framleiðslu á sængum og koddum úr dún.

„Þetta gengur alveg rosalega vel og þetta er orðið eitt veltumesta fyrirtækið á Borgarfirði,“ segir Eyþór. Dúnninn komi úr Loðmundarfirði, Borgarfirði og víðar á Austurlandi og fjölskyldan hafi sannarlega sett mark sitt á þorpið og bæjarfélagið.

„Það er því ekki svo slæmt þegar fjarbúar eignast hús hér, það virðist skila sér vel að lokum,“ segir Eyþór hlægjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert