Gylfi Þór Þorsteinsson segir að um fjögur hundruð manns hafi komið til landsins frá Úkraínu og gefið sig fram við yfirvöld eftir að stríðsátök brutust út í Úkraínu og þá séu enn fleiri hér á landi sem ekki hafi gefið sig fram sem flóttamenn. Gylfi fer fyrir aðgerðateymi sem félags-og vinnumarkaðsráðuneytið setti saman til að skipuleggja móttöku flóttafólks frá Úkraínu.
„Við höfum verið að bæta við húsnæði á undanförnum dögum. Auk þess auglýsti Eignasýsla ríkisins eftir húsnæði um helgina, bæði til lengri og skemmri tíma. Um helgina tókum við í notkun húsnæði sem Icelandair lét okkur í té. Þar er heill stigagangur í húsnæði á Ásbrú á Miðnesheiði. Verkalýðsfélög eru að bjóða íbúðir og sumarbústaði bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og víðar um landið. Við þiggjum þetta allt með þökkum enda er mikill fjöldi að koma frá Úkraínu eins og ljóst er. Þau bætast ofan á þann fjölda sem er að koma til Íslands annars staðar frá,“ sagði Gylfi þegar mbl.is spjallaði við hann í dag.
Gylfi bendir á að vitað sé um fleiri Úkraínumenn sem hafi komið nýlega til Íslands en hafa ekki gefið sig fram sem flóttamenn.
„Þeir sem hafa komið frá Úkraínu og gefið sig fram eru um fjögur hundruð manns. Eins og staðan er núna. Við vitum jafnframt að töluvert fleiri hafa komið hingað frá Úkraínu en hafa ekki gefið sig fram við Útlendingastofnun eða lögreglu. Þau geta verið hér sem ferðamenn í allt að þrjá mánuði eins og hver annar. Þau gætu því komið inn í ferlið á hvaða tímapunkti sem er. Opinbera talan er sem sagt um fjögur hundruð en við vitum að það eru töluvert fleiri sem hafa komið hingað frá Úkraínu.“
„Á bilinu tuttugu til þrjátíu manns koma daglega til Íslands frá Úkraínu. Fyrir kerfi sem var mjög þanið fyrir, þá hefur reynst svolítið flókin framkvæmd að sinna þessu. En það hefur tekist fyrst fólkið komst út úr úrræðum Útlendingastofnunnar og inn í lengra búsetuúrræði. Það gerðist bara í gær. Fólk er því byrjað að færa sig yfir í búsetu sem hugsuð er til lengra tíma en tvær vikur. Það var mjög jákvætt skref en líka nauðsynlegt því úrræði Útlendingastofnunnar eru nánast sprungin. Þar af leiðandi var mjög gott að geta létt aðeins á þar,“ sagði Gylfi og neitar því ekki að ýmsar áskoranir fylgi þessu verkefni. Spurður um hvernig hafi gengið á heildina litið segir hann að tekist hafi að leysa þau vandamál sem upp hafa komið.
„Þegar við erum að vinna með verkefni af þessari stærðargráðu þá koma upp vandamál á hverjum degi. Þá þurfum við að vanda okkur en til þessa hefur ekki komið upp mál sem ekki hefur tekist að leysa. Sem betur fer. Það er líka mikill fjöldi félagasamtaka, opinberra aðila, sveitarfélaga og hjálparsamtak sem koma saman að þessu verkefni. Það eru allir boðnir og búnir að gera sitt allra besta til að leysa þetta farsællega,“ sagði Gylfi Þór í samtali við mbl.is.