Bankinn tók 70% af arðinum

Í heild fékk dóttir hans aðeins um 73 krónur greiddar …
Í heild fékk dóttir hans aðeins um 73 krónur greiddar af alls 735 króna arði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölskyldufaðirinn Þórarinn Friðriksson rak upp stór augu þegar hann sá að um 90% af arðgreiðslu til dóttur hans hefðu horfið í skatta og gjöld. Þar af hirti Íslandsbanki 500 krónur eða um 70% arðsins. Í heild fékk dóttir hans aðeins um 73 krónur greiddar af alls 735 króna arði.

„Mér fannst þetta aðallega hálfspaugilegt, en jú, auðvitað var þetta pínu súrt,“ segir Þórarinn. „Ég geri mér grein fyrir því að einkafyrirtæki þurfa að fá greitt fyrir veitta þjónustu. En auðvitað var þetta 90% af arðinum hennar.“

Aðspurður segir Þórarinn að bankarnir stundi í raun hálfgert okur, þar sem þeir taki einnig umsýslugjald og ýmsar aðrar þóknanir þegar fjárfestingar fólks eru annars vegar.

„Þessir krakkar eru að kaupa bréf og reyna að stimpla sig inn á markaðinn. Læra inn á þetta og svo þegar þau sjá þetta, þá er það pínu högg.“

Þórarinn segir að há gjöld séu til þess fallin að draga úr vilja unga fólksins til fjárfestinga, ekki síst þegar um er að ræða lágar fjárhæðir.

„Þetta er auðvitað stór hluti af fjárfestingunni sem slíkri þegar þetta eru svona lágar upphæðir.“

Spurður hvort þetta geti ef til vill ýtt ungu fólki út í áhættusamari fjárfestingar segir Þórarinn að það gæti vel verið.

„Mér finnst nú unga fólkið oft tiltölulega áhættusækið,“ segir hann og nefnir sem dæmi þekktan áhuga ungu kynslóðarinnar á rafmyntum.

Ef verðskrá Íslandsbanka er skoðuð má sjá að lágmarksþóknun fyrir kaup og sölu á íslenskum hlutabréfum er 3.500 krónur. Þar á ofan bætist afgreiðslugjald upp á 500 krónur. Ungur fjárfestir sem ákveður sem dæmi að kaupa í Íslandsbanka fyrir 100 þúsund krónur tapar um leið fjögur þúsund krónum eða heilum 4% af fjárfestingunni. Við sölu þarf hann svo að borga að minnsta kosti aðrar fjögur þúsund krónur, miðað við verðskrá bankans. Loks er árlega innheimt umsýsluþóknun, að lágmarki 3.200 krónur. logis@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert