Bregðast þurfi við dökkri skýrslu McKinsey

Willum segir í svari við fyrirspurn Helgu að stórauka þurfi …
Willum segir í svari við fyrirspurn Helgu að stórauka þurfi heimahjúkrun. Samsett mynd

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, spurði heilbrigðisráðherra í þinginu í dag hvað yrði gert til þess að bæta heilbrigðiskerfið, í ljósi skýrslu McKinsey um greiningu á framtíðarþjónustu Landspítalans, þar sem meðal annars kemur fram að nýting legurýma á LSH sé verulega yfir æskilegum viðmiðum.

„Aðhaldskrafa ríkisstjórnarinnar skellur á heilbrigðisstofnunum um land allt, sem skilar okkur því einu að þær draga úr þjónustu við sjúklinga sem enda á gólfinu á Landspítalanum,“ sagði Helga og óskaði eftir svörum heilbrigðisráðherra.

Segir skýrsluna unna til þess að bæta kerfið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tók þá til máls og sagði:

„Ef við gerum ekkert þá mun þörfin fyrir legurými aukast um helming, frá þeim 740 legurýmum sem verða til þegar við reisum meðferðarkjarnann. Af hverju erum við að setja fram þessa skýrslu? Jú, til að bregðast við,“ sagði hann.

„Við þurfum að kjarna hlutverk spítalans, við þurfum að koma fyrsta stigs þjónustunni meira út í kerfið og ég er sammála þingmanni, við þurfum að efla þjónustuna við aðra,“ sagði Willum og hélt áfram:

„Við þurfum að halda áætlun í uppbyggingu hjúkrunarrýma en við þurfum að gera gott betur. Við þurfum að auka verulega, og hefðum átt að byrja á því miklu fyrr en við erum þó farin af stað, að auka heimahjúkrun,“ sagði hann og bætti við að hætta þurfi að sjúkdómsvæða eldra fólk en hjálpa því að lifa virku lífi lengur á ævinni og marka við aldur. 

Ný andlit í þinginu

Ný andlit eru tekin að birtast í þingsal þessa dagana. Tóku þrír varaþingmenn sæti á þingi í fyrsta skipti í dag og undirrituðu drengskaparheit að stjórnarskránni.

Það voru þær Kristín Hermannsdóttir, 2. varamaður á lista Framsóknarflokksins í suðvesturkjördæmi, Iða Marsibil Jónsdóttir 2. varamaður Framsóknarflokksins í norðvesturkjördæmi og Hilda Jana Gísladóttir, 1. varamaður Samfylkingar í norðausturkjördæmi.

Ágúst Bjarni Bjarnason, þingmaður Framsóknar, verður fjarverandi á næstunni auk Lilju Rannveigar Sigurðsdóttur, Halldóru Mogensen og Loga Einarssonar. Þá tekur Lenya Rún Taha Karim varaþingmaður Pírata sæti á þingi á ný. 

Þingfundur hófst klukkan 15 í dag með óundirbúnum fyrirspurnum en þaðan var farið yfir í sérstaka umræðu um matvælaöryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert