Krýsuvíkurvegur verður lokaður vegna kvikmyndatöku í dag, á morgun og hálfan miðvikudaginn.
Vegagerðin greinir frá þessu.
Krýsuvíkurvegur: Krýsuvíkurvegur verður lokaður vegna kvikmyndatöku í dag, mánudag 28. mars, þriðjudag 29. mars og hálfan miðvikudag 30. mars #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) March 28, 2022
Tökurnar fara fram við Kleifarvatn á vegum framleiðslufyrirtækisins True North, að því er kemur fram á facebooksíðunni Bakland ferðaþjónustunnar. Til þess að tryggja öryggi verður lokað fyrir umferð um Krýsuvíkurveg.
„Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. Allar takmarkanir hafa verið skipulagðar með leyfi veghaldara og bæjaryfirvalda,“ segir í tilkynningu frá True North á síðunni.
Líklegt er að þarna séu á ferðinni upptökur á hasarmyndinni Heart of Stone úr smiðju Netflix með Gale Gadot í aðalhlutverki, en ekki náðist í True North við vinnslu fréttarinnar. Vegna verkefnisins stendur einnig til loka götum í Reykjavík dagana 2. til 5. apríl.
„Það er búið að vera að vinna að þessu verkefni frá síðasta sumri og farið var í fyrstu vettvangskannanir í október. Við höfum unnið í nánu og góðu samstarfi við Reykjavíkurborg, Vegagerðina, lögregluyfirvöld og Hörpu og það eru allir að leggja sig fram við að þetta gangi sem best fyrir sig,“ sagði Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá True North, við Morgunblaðið um verkefnið á dögunum.