Líklegt er að aðgerðir geti hafist í apríl við að ná flugvélinni sem fórst í Þingvallavatni en það fer þó allt eftir veðri.
Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
„Við bíðum þar til það er tryggt að það er hægt er að gera þetta í einum rykk og ekkert sem truflar. Við förum ekkert af stað fyrr en ísinn er farinn,“ segir Oddur og bætir við að enn sé ís sunnanmegin á vatninu þar sem vélin fórst.
„Það er farið að opnast eitthvað norðanmegin en við förum ekkert af stað fyrr en bakkinn er orðinn það frír að við getum sjósett báta,“ bætir hann við.
Flugvélin, sem fórst í byrjun febrúar með fjóra karlmenn um borð, liggur á 48 metra dýpi í Ölfusvatnsvík.
Oddur segir lögregluna hafa verið í góðu sambandi við fólk á svæðinu sem sendir reglulega ljósmyndir af ísalögum, auk þess sem lögreglan skoðar stöðuna þegar hún er þar á ferðinni við eftirlitsstörf.
Spurður hvenær hann telur hægt að hífa flak vélarinnar upp segir Oddur: „Ég veðja á að apríl sé líklegur en það er bara veðrið sem ræður.“
Lögreglan bannaði í byrjun mánaðarins köfun í Ölfusvatnsvík vegna umræðu á meðal kafara um að kafa nálægt flakinu og kveðst Oddur ekki vita til þess að það bann hafi verið brotið.