Þörf verður fyrir um 50% fleiri rými á Landspítala árið 2040, en áætlað er að verði í boði þegar nýr Landspítali opnar á Hringbraut árið 2026. Þetta kemur fram í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið McKinsey vann fyrir heilbrigðisráðuneytið, um framtíðarþróun þjónustu Landspítala.
Ef ekki er gripið til stórtækra aðgerða af hálfu Landspítala og heilbrigðiskerfisins í víðara samhengi er því spáð að vinnuaflsþörf muni aukast um um það bil 36% og kostnaður um u.þ.b. 90%.
Þá lítur út fyrir að þörfin fyrir rými á Landspítala verði búin að aukast um 80% árið 2040.
Hægt er að grípa til nokkurra lykilaðgerða til þess að sporna við þessu og segir heilbrigðisráðherra mikilvægt að skýrslan hafi verið unnin.
Faraldurinn leiddi í ljós ýmsa ágalla á heilbrigðiskerfinu og lék þar skortur á legurýmum stórt hlutverk. Samkvæmt grunnspánni er áætlað að nauðsynlegum rýmum fjölgi um 79%, eða úr 624 í 1.120 og stafar aukningin af núverandi skorti á rýmum (+110 rými), lýðfræðilegum áhrifum (+407 rými) og ólýðfræðilegum áhrifum (–21 rými).
Í skýrslunni er staðhæft að það væri langt umfram þann fjölda sem nú er fyrirhugaður eftir að nýja sjúkrahúsbyggingin við Hringbraut verður tekin í notkun.
Búist er við mestri aukningu í öldrunar- og endurhæfingarþjónustu (+3,1%) en minnstri í kvenna- og barnaþjónustu (+0.0%) og geðþjónustu (+0.6%).
Ákveðnar lykilaðgerðir sem raktar eru í skýrslunni eru sagðar geta vegið upp á móti hinni auknu aðfangaþörf Landspítala. Í því samhengi er lagt til að færa langtíma- og fyrsta stigs þjónustu, sem nú er veitt á Landspítala, yfir í hentugra þjónustuumhverfi. Hefði það í för með sér lægri kostnað og líklega betri þjónustugæði. Þetta gæti mætt um helmingnum af þörf fyrir rými á legudeildum og komum á göngudeildir.
Til þess þyrfti að búa til það sem samsvarar um 240 rýmum í t.d. heimahjúkrunar-, öldrunar- og endurhæfingarþjónustu, auk skipulagðs átaks til að færa þessa umönnunar- og fyrsta stigs þjónustu yfir á þjónustustofnanir utan Landspítala.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði á þinginu í dag að skýrslan hefði einmitt verið unnin til þess að kortleggja stöðu heilbrigðiskerfisins. Lagði hann þar nokkra áherslu á fyrrgreind atriði, þ.e. að bæta heimahjúkrun og fjölga hjúkrunarrýmum.