Ekki hægt að bíða eftir kjarasamningum

Sjúkraliðar á baráttufundi. Mynd úr safni.
Sjúkraliðar á baráttufundi. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formenn félaga heilbrigðisstétta innan BHM segja að ekki þurfi að bíða eftir næstu kjarasamningum til þess að bæta kjör stéttanna.

Þetta segir í yfirlýsingu þeirra, en vísað er til viðtals Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sem mun hafa birst í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins í gær.

„Við fögnum orðum Willums um þörfina fyrir að ná góðum kjarasamningum fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Það breytir því þó ekki að nauðsynlegt er að setja strax inn mótvægisaðgerðir við langvarandi mönnunarvanda og alvarlegu álagi sem hefur aukist til muna í heimsfaraldri síðustu tveggja ára,“ segir í yfirlýsingunni.

Bent er á að Runólfur Pálsson forstjóri Landspítala hafi einnig sagt að engan tíma megi missa til aðgerða í stöðunni eins og hún er í dag. „Við tökum heilshugar undir það.“ 

Þörf á markvissum aðgerðum strax

Af þeim sökum sé kallað eftir aðkomu ríkisins að stofnanasamningum undir eins, svo unnt sé að leiðrétta og bæta launasetningu og starfsþróun heilbrigðisstarfsfólks.

„Ekki er hægt að bíða eftir miðlægum kjarasamningum til þess. Þörf er á því að fara strax í kröftugar og markvissar aðgerðir sem stöðva flótta heilbrigðisstarfsfólks  úr störfum innan heilbrigðiskerfisins. Samhliða því þarf að hvetja fagmenntað heilbrigðisstarfsstarfsfólk til að snúa aftur til starfa. 

Heilbrigðisstéttir innan BHM eru tilbúnar í samtalið strax.“

Undir þetta rita:

  • Félag lífeindafræðinga
  • Félag íslenskra náttúrufræðinga
  • Félagsráðgjafafélag Íslands
  • Félag geislafræðinga
  • Félag sjúkraþjálfara
  • Iðjuþjálfafélag Íslands
  • Ljósmæðrafélag Íslands
  • Sálfræðingafélag Íslands
  • Þroskaþjálfafélag Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert