Ekki lengur tími fyrir örvandi ríkisfjármálastefnu

Bjarni Benediktsson á á fundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson á á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stóru tíðindin eru að bjartari efnahagshorfur eru að skila sér mjög hratt í afkomu ríkissjóðs.“ Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að sé helsta niðurstaðan í nýbirtri fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 sem var kynnt í fjármálaráðuneytinu í dag. Bjarni sér fyrir sér öflugt hagvaxtarskeið framundan, en skuldasöfnun mun dragast mikið saman frá því sem verið hefur í gegnum faraldurinn og þegar horft er til áætlana um aukinn hagvöxt þýðir það að skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu eiga að standa í stað í um 45% frá árinu 2025. 

Er þetta talsvert betri skuldastaða en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir, en bætt uppsöfnuð skuldastaða frá síðustu fjármálaáætlun nemur 231 milljarði. „Hátt atvinnustig í augnablikinu er að hjálpa mikið til og skuldahlutföllin eru óravegu frá því sem við óttuðumst 2020, svona hálft ár inn í faraldurinn. Þá vorum við að gera ráð fyrir að skuldahlutföllin færu hjá hinu opinbera upp í 65%, en við erum svona 20 prósentustigum fyrir neðan það,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is eftir fundinn í morgun.

Spurður um helstu ástæður fyrir betri afkomu segir hann að í fyrsta lagi hafi verið gríðarlega mikil óvissa um framtíðina í miðjum faraldrinum. Þá telji hann að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar hafa komið vel út. „Það var hugsun á bak við það og hún var að veita skjól, vernd og viðspyrnu svo þegar tæki að birta að nýju. Þetta gerðum við í þeirri trú að við værum að fást við tímabundið ástand,“ segir Bjarni og bætir við: „Ég vil meina að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, þar sem við beittum ríkisfjármálunum af miklum krafti til að veita skjól og viðspyrnu, séu að skila árangri.“

Fyrirtækin á Íslandi tóku fljótt við sér

Bjarni segir jafnframt að komið hafi í ljós að fyrirtækin á Íslandi voru mjög fljót að taka við sér þegar áhrifa af faraldrinum hætti að gæta. Segir hann að skuldastaða fyrirtækja og heimila hjá lánastofnunum vera með besta móti sögulega og að það sé aðeins afmarkaður hluti fyrirtækja, helst í ferðaþjónustu, sem glími við uppsafnaðan skuldavanda.

Nú taki aftur á móti við nýr tími með breyttum áherslum í ríkisfjármálum að sögn Bjarna. „Nú skiptir máli fyrir alla að átta sig á því að það eru ekki lengur aðstæður þar sem er skynsamlegt að vera með örvandi ríkisfjármálastefnu. Nú er slakinn farinn úr hagkerfinu. Nú þurfum við að draga úr vexti ríkisfjármálanna og með þann hagvöxt í farteskinu sem spáð er munum við stöðva skuldasöfnun og ná jöfnuði í ríkisfjármálum,“ segir hann.

Spurður hvar hann sjái fyrir sér að helst verði dregið úr ríkisútgjöldum segir Bjarni að þar skipti hvað mestu t.d. atvinnutryggingar sem hafi kostað mikið í faraldrinum meðal annars í formi hlutabóta. „Við vorum með sérsniðnar aðgerðir fyrir fyrirtæki og heimili sem hlupu á tugum milljarða.  Svo vorum við með viðspyrnu- og tekjufallsstyrki sem eru að renna sitt skeið.“

Stækkun tilfærslukerfa haft áhrif á fjárfestingar

Bjarni segir einnig að talsverðar breytingar séu framundan á tekjuhliðinni á áætlunartímabilinu þegar komi að því að draga út stuðningi við rafmagnsbíla og orkuskiptin. Aðallega sé því verið að draga úr sértækum stuðningskerfum, en Bjarni tekur fram að í raun sé verið að auka fjárfestingar hins opinbera. „Það er mikilvægt að vanmeta ekki þá þörf sem er fyrir fjárfestingu.“

Ein ástæða þess að ekki hefur verið hægt að auka fjárfestingar meira á undanförnum árum að sögn Bjarna eru aukin útgjöld í öðrum flokkum. „Ástæðan fyrir því að það hefur gengið hægar en maður hafði óskað að hækka á ný fjárfestingastigið er að við höfum verið að bæta mikið við í tilfærslukerfin, eins og almannatryggingar, bæði örorkulífeyri og ellilífeyri. Þessi kerfi hafa stækkað mikið á síðustu árum og rutt frá sér svigrúmi til að fara í fjárfestingar. Nú komin mikil uppsöfnuð þörf fyrir fjárfestingar,“ segir hann.

Tekur Bjarni fram að verið sé að auka mikið stuðning við rannsóknir, nýsköpun og þróun og að ríkisstjórnin líti á það sem hluta af fjárfestingum.

Ekki aðhaldskrafa á heilbrigðiskerfið

Bjarni segir að hægt sé að auka fjárfestingar ríkisins án þess að auka spennustigið í hagkerfinu ef takist að halda ríkisútgjöldum frá því að vaxta umfram þessa áætlun. „Við erum með mjög hóflegan vöxt ríkisútgjalda á þessu tímabili. Minniháttar aðhaldskröfu, en að öðru leyti rúmlega 1% raunvexti útgjalda.“

Spurður hvort raunhæft sé að miða við að hækkunin verði ekki meiri en þetta segir Bjarni að tekið verði tillit til mismunandi málaflokka og að meðal annars verði engin aðhaldskrafa í heilbrigðiskerfinu. „Erum að taka tillit til þess hvernig við útdeilum raunvextinum í ríkisútgjöldum og hvernig við látum aðhaldsaðgerðir spila inn í einstaka málaflokka. Þá eru þetta mjög hóflegar aðhaldsaðgerðir í sögulegu samhengi sem við erum að beita núna,“ segir hann.

Forsendur fyrir öflugu hagvaxtarskeiði

Upplegg kynningar Bjarna var mjög jákvætt og talaði hann um bjarta tíma framundan og góða stöðu ríkissjóðs. Telur Bjarni þá að nýtt góðæristímabil sé framundan? „Það eru allar forsendur fyrir því að það sé að hefjast nýtt öflugt hagvaxtarskeið, en við ættum samt ekki að taka of mikið út í einu heldur taka styttri skref og láta þau vera fleiri,“ segir Bjarni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert