Fjölmennasta ríkisstofnunin er með 6.500 starfsmenn en sú sem er með fæsta starfsmenn er með tvo. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ekki sé verjandi að hafa mjög fámennar ríkisstofnanir nema í algjörum undantekningartilfellum.
Í morgun kynnti Bjarni nýja fjármálaætlun fyrir árin 2023-2027, en á einni glærunni var komið inn á „tækifæri í einfaldari ríkiskerfi“ eins og fyrirsögn hennar sagði. Var þar meðal annars nefnt að hagkvæmari rekstur næðist með aukinni stærðarhagkvæmni og nefndi Bjarni að hjá stofnunum ríkisins væru meðal annars 70 „mínar síður“ sem allar kölluðu á tæknivinnu og kostnað samhliða því.
Þá kom fram að ríkisstofnanir í dag væru 163, en sú fjölmennasta er með 6.500 starfsmenn meðan sú fámennasta var einungis með tvo starfsmenn.
Í samtali við mbl.is eftir fundinn sagði Bjarni að hann hefði lengi verið þeirrar skoðunar að lágmarksstærð ætti að vera á stærð ríkisstofnana. Það hefði meðal annars verið eitt af fyrstu málum sem hann lagði fram sem þingmaður fyrir rúmum tveimur áratugum.
„Mér finnst ekki verjandi að koma á fót ríkisstofnun fyrir fimm manns eða færri. Það kann að vera að hægt sé að réttlæta með tíu manns, en minna en það finnst mér orðið mjög vafasamt og ætti bara að vera í algjörum undantekningartilfellum,“ segir Bjarni.