Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er undrandi á því að ekki sé gert ráð fyrir þjóðarleikvöngum í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2023 til 2027. Borgin ætlar að reisa sérstakt hús fyrir Þrótt og Ármann í Laugardalnum ef ríkið ræðst ekki í byggingu þjóðarhallar inniíþrótta.
„Ég batt vonir við að það kæmu fjármunir inn á þessa fimm ára fjármálaáætlun. Við höfum lagt mikla áherslu á að það þyrfti. Ég held að mitt næsta verkefni sé að leita skýringa á af hverju svo er ekki. Það skiptir máli að vita þetta hratt og vel, borgin getur ekki beðið,“ segir Dagur.
Fram kemur í fjármálaáætluninni að enn sem komið er séu áform um þjóðarleikvanga á byrjunarstigi og að endanlegt umfang framkvæmdanna liggi ekki fyrir. Þess vegna þyki ekki tímabært að gera ráð fyrir þeim í áætluninni.
Spurður hvort ríkisstjórnin átti sig ekki á þörfinni á nýjum þjóðarleikvöngum kveðst Dagur ekki vilja fullyrða um það. Gefnar hafi verið mjög skýrar yfirlýsingar og býsna skýr fyrirheit um slíkar framkvæmdir í aðdraganda síðustu þingkosninga.
„Auðvitað á eftir að mæla fyrir þessu á þinginu og það geta orðið breytingar en ef þetta á að verða skiptir mjög miklu máli að það sé skýrt.“
Dagur segist hafa verið skýr í samtölum sínum bæði við ráðherra, íþróttafélög í Reykjavík og sérsambönd um að svör fáist á þessu vori, enda hafi borgin um nokkurt skeið tekið frá fjármuni til að geta farið í framkvæmdir í Laugardalnum vegna brýnnar þarfar.
„Ef ríkisstjórnin er að ýta þjóðarhallarverkefninu fimm ár fram í tímann þá hef ég verið alveg skýr á því að við getum ekki beðið eftir því. Þá reisum við bara sérstakt hús fyrir Þrótt og Ármann í Laugardalnum.“
Hvað nýjan þjóðarleikvang í Laugardalnum varðar segir Dagur tölurnar skipta mestu máli núna. „Það þarf peninga ef þetta á að verða. Fjármálaáætlun er einmitt til þess að setja fjármuni í það sem á að fara af stað og ég er hissa á því að þessi áform séu ekki þar á meðal.“
Dagur talaði um það á íbúafundi í Laugardal í febrúar að hann myndi leggja til við borgarráð 5. maí að nýtt íþróttahús yrði byggt í Laugardal ef ekki yrði minnst á þjóðarhöll í fjármálaáætluninni.
Stendur það loforð?
„Það stendur. Ef það verða ekki skýr svör um að þetta sé að fara af stað strax mun borgin fara í það að byggja sérstakt hús fyrir börn og unglinga í Laugardalnum. Þetta hefur verið mín skýra afstaða í samskiptum við alla sem að málinu koma. Það á ekki að koma á óvart,“ greinir borgarstjórinn frá.