Hallinn fari úr 183 milljörðum í 34

Bjarni Benediktsson með fjármálaáætlunina.
Bjarni Benediktsson með fjármálaáætlunina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gert er ráð fyrir að halli ríkissjóðs fari úr 183 milljörðum króna á þessu ári niður í 34 milljarða árið 2027. Þetta kemur fram í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2023 til 2027.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því á blaðamannafundi að skuldahorfur hafi stórbatnað. Halli ríkissjóðs hafi verið verulegur í heimsfaraldrinum en að hann muni dragast saman ár frá ári.

Hann sagði gert ráð fyrir 231 milljarði króna minni halla hins opinbera frá 2021 til 2026 en spáð var, eða sem nemur einum Íslandsbanka.  

Markmið stjórnvalda miðast við að draga jafnt og þétt úr afkomuhalla og stöðva hækkun skulda hins opinbera í hlutfalli af VLF eigi síðar en árið 2026. Með þessu verði grunnurinn treystur á ný og samfélagið betur í stakk búið til að takast á við óvænt áföll framtíðar, segir í tilkynningu sem fylgdi fjármálaáætluninni. 

1.430 milljarða tekjur á þessu ári

Tekjur hins opinbera eru áætlaðar um 1.430 milljarðar króna á þessu ári eða tæplega 40% af VLF. Útgjöld hins opinbera eru aftur á móti áætluð um 1.610 milljarðar króna á þessu ári eða tæplega 45% af VLF.

Bjarni Benediktsson á fundinum.
Bjarni Benediktsson á fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Með hóflegum útgjaldavexti en sókn í opinberri fjárfestingu, öflugum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun og hagfelldu umhverfi fyrir vaxtarsprota samfélagsins leggjum við grunn að nýju hagvaxtarskeiði. Á grundvelli þessarar fjármálaáætlunar höldum við áfram að fjárfesta í öflugu samfélagi, en treystum á sama tíma grunninn til að mæta óvæntum áföllum framtíðar," er haft eftir Bjarna í tilkynningunni. 

„Áhersla verður lögð á að koma böndum á verðbólgu, tryggja stöðugleika í hagkerfinu og stuðla þannig að hóflegu vaxtastigi fyrir heimili og fyrirtæki. Þar gegnir gott samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar lykilhlutverki.“

Gert ráð fyrir lægri verðbólgu

Fram kemur að verðbólga hafi hækkað að undanförnu en sé þó mun minni hér á landi en í mörgum samanburðarríkjum. Verðbólga er nú 4,4% á Íslandi, samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs, en um 6,2% í ríkjum Evrópusambandsins.

„Gert er ráð fyrir að verðbólga taki að lækka með ábyrgri hagstjórn á sviði ríkisfjármála, peningamála og á vinnumarkaði, en sú stefna sem birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar stuðlar að því,“ segir í tilkynningunni.

Atvinnuleysi verði um 4%

Einnig er gert ráð fyrir að atvinnuleysi lækki enn hraðar en áður var talið og verði um 4% á tíma fjármálaáætlunar.

60% útgjalda til tveggja málaflokka

Útgjaldaáætlun ríkissjóðs á áætlunartímabilinu grundvallast á markmiðum fjármálastefnu fyrir árin 2022 til 2026 og ákvörðunum sem voru teknar í fyrri fjármálaáætlunum á síðasta kjörtímabili og fjárlögum fyrir árið 2022. Þar má nefna ýmis áherslumál stjórnvalda, svo sem aukin framlög til fjárfestingaverkefna, heilbrigðismála, nýsköpunar og loftslagsmála, segir í tilkynningunni. 

Á tímabili fjármálaáætlunarinnar vega útgjöld til heilbrigðismála þyngst, eða 31%, en útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingarmála nema 27%. Alls eru tæplega 60% heildarútgjalda vegna þessara tveggja málaflokka. Þriðju veigamestu útgjöldin eru til mennta- og menningarmála, eða 12% af heildinni.

Bjarni greindi frá því á fundinum að umræða um fjármálaáætlun fari fram á Alþingi í næstu viku.

Aukin framlög til geðheilbrigðismála

Gert er ráð fyrir sérstakri varanlegri aukningu framlaga til geðheilbrigðismála sem nemur 500 milljónum króna á fyrsta ári áætlunarinnar, en 100 milljóna króna hækkun á ári næstu tvö ár eftir það. Framlög til málaflokksins hafa verið aukin verulega undanfarin ár. Varanleg heildaraukning til geðheilbrigðismála nemur 1.650 milljónum króna á tímabilinu 2019–2025.

Aukin starfstækifæri fyrir öryrkja

Einnig er gert ráð fyrir auknum framlögum til endurskoðunar á örorkulífeyrishluta almannatrygginga þar sem áhersla verður lögð á bætt kjör, starfsendurhæfingu og frekari vinnumarkaðsúrræði. Á næsta ári verður tekið fyrsta skrefið í átt að nýju og sanngjarnara kerfi með 430 milljóna króna framlagi sem varið verður til ýmissa verkefna sem eiga að stuðla að fjölbreyttari starfstækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert