Hefði verið álíka áfall og eftir bankahrunið

Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í morgun þar sem ný fjármálaáætlun …
Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í morgun þar sem ný fjármálaáætlun var kynnt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt núverandi horfum um afkomu hins opinbera er áætlað að uppsafnaður halli áranna 2020 til 2022 verði gríðarlegur eða meira en 700 milljarðar króna. Það er þó um 200 milljörðum minna en fyrri áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Þetta kemur fram í fjármálaáætlun fyrir árin 2023 til 2027.

„Óhjákvæmilega hefur ríkt mikil óvissa um efnahagsþróunina og þróun opinberra fjármála frá því faraldurinn hófst. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að uppsafnaður hallarekstur hins opinbera árin 2020–2022 gæti numið ríflega 900 milljörðum króna eða sem svarar til nálægt 30% af VLF. Slíkt áfall hefði verið nálægt stærðargráðu afleiðinga bankahrunsins en uppsafnaður hallarekstur áranna 2008–2010 nam ríflega 30% af VLF,“ segir þar.

Skuldaaukning og fjármögnunarþörf ríkis og sveitarfélaga hefur reynst mun minni en upphaflega var reiknað með. Núna er aukning skulda áætluð þriðjungi minni en í upphafi faraldursins fyrir árin 2020 til 2022. Upphaflega var gert ráð fyrir um tæplega 1.000 milljarða skuldaaukningu þessi þrjú ár.

Fram kemur einnig að auk bættrar afkomu ríkis og sveitarfélaga megi rekja minni skuldaaukningu til sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka. Ekki var gert ráð fyrir sölunni í fjármálaáætlun áranna 2021 til 2025 sem var lögð fyrir Alþingi haustið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert