Örkumlaðist eftir barnsburð

Ótengd mynd úr safni.
Ótengd mynd úr safni. mbl.is/Golli

Kona sem örkumlaðist við barnsburð undirbýr nú stefnu á hendur íslenska ríkinu vegna meintra læknamistaka. 

Greint var frá þessu í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu. Þar kemur fram að tíundi hver sjúklingur sé talinn verða fyrir einhverskonar mistökum, vanrækslum eða óhappi í heilbrigðiskerfinu. 

Í ársskýrslu embættis landlæknis kemur fram að um helmingur þessara atvika varði byltur eða föll, en 14 prósent eru mistök tengd lyfjagjöf.

Stúlkan fæddist með meðfætt ofvaxtarheilkenni

Konan sem undirbýr stefnuna heitir Bergþóra Birnudóttir. Hún var 37 ára þegar hún varð ólétt af sínu þriðja barni. Fljótt skynjaði hún að ekki væri allt með felldu en hún varð fljótt óvenju stór og fékk alvarlega grindargliðnun sem olli því að hún þurfti að hætta að vinna, gengin sextán vikur. 

Bergþóra vildi fá gangsetningu en læknirinn mælti ekki með því, enda væri það aðeins gert í „mjög slæmum tilvikum“.

Þegar Bergþóra var loks gangsett er ljósmóðirin sögð hafa beitt aðferð sem kallast manual fundal pressure til þess að þrykkja barningu út með eigin líkamsþunga. 

Eftir fæðingu kom í ljós að nýfædd stúlkan var með meðfætt ofvaxtarheilkenni. 

Vanræksla hafi ekki átt sér stað

Ekkert er skráð í fæðingarskýrslu Bergþóru um að þessu handbragði hafi verið beitt. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir gegn beitingu þess vegna skaða sem það getur valdið bæði móður og barni.

Bergþóra hlaut þriðju gráðu spangartætingu. Slíkir áverkar geta haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar fyrir konur. Þá varð hún einnig fyrir skaða á taugum og vöðvum í grindarbotni og endaþarmi. Síðar reyndist nauðsynlegt að fjarlægja neðsta hluta ristilsins.

Bergþóra fékk hámarksbætur frá Sjúkratryggingum Íslands vegna þess sem fyrir hana kom, eða 10,8 milljónir króna.

Skömmu eftir fæðinguna, sumarið 2016, sendi hún kvörtun vegna vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu til embættis landlæknis en tveimur og hálfu ári seinna barst álit landlæknis þess efnis að vanræksla hefði ekki átt sér stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert