Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra lýsti þvi yfir á blaðamannafundi í Helsinki í dag að Ísland myndi styðja aðildarumsókn Finnlands að Atlantshafsbandalaginu, ef til þess kæmi. Aftur á móti kvaðst hún ekki geta sagt til um það hve langan tíma það tæki fyrir Ísland að afgreiða ályktun þess efnis.
Voru þetta svör hennar við fyrirspurnum blaðamanns sem benti á að Eistland og Litháen hefðu nú þegar gefið fyrirheit um að afgreiða ályktun, um sína afstöðu til aðildarumsóknar, á aðeins örfáum dögum.
Þórdís Kolbrún er í þriggja daga opinberri heimsókn í Helsinki um þessar mundir í tilefni af 75 ára stjórnmálasambandi Íslands og Finnlands. Með í för er viðskiptasendinefnd Íslandsstofu og íslenskra fyrirtækja sem eru leiðandi í grænum orkulausnum.
Í dag fundaði hún með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands um þessi tímamót, samstarfstækifæri í gegnum orkulausnir og stríðið í Úkraínu. Að loknum fundi ávörpuðu ráðherrarnir blaðamenn og tóku við spurningum.
Þórdís Kolbrún lýsti innrás Rússa sem stríði á hendur hugmyndafræði sem varðar grundvallarreglur réttarríkisins, mannréttinda og lýðræðis.
Þá sagði Þórdís Kolbrún að þau Haavisto hefðu rætt sambönd ríkjanna við Kína, en það skipti miklu máli að Norðurlöndin haldi úti nánu samtali og séu samstiga á öllum vígstöðvum, sérstaklega á tímum sem þessum.
Blaðamaður úr sal spurði ráðherrana út í viðhorf þeirra til viðræðnanna sem standa nú yfir milli Rússlands og Úkraínu.
Þórdís Kolbrún sagði það jákvætt að viðræður væru í gangi og kvaðst vonast til að þær skili árangri en taldi þó ekki enn neitt komið fram sem gæfi efni til of mikillar bjartsýni.
Haavisto lagði áherslu á mikilvægi þess að Úkraína fengi áfram stuðning frá Evrópusambandinu og alþjóðasamfélaginu öllu meðan á viðræðunum stendur.
Hægt er að horfa á blaðamannafundinn hér.