Pawel harmar skemmdarverk við Einimel

Loftmynd af umræddu svæði.
Loftmynd af umræddu svæði. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir bagalegt að framin hafi verið skemmdarverk á bifreiðum fyrir utan hús á Einimel, þar sem lögð er til heimild um að stækka lóðir inn á sundlaugartúnið við Vesturbæjarlaug. 

Hann segist hvetja íbúa til að nýta sínar lýðræðislegu leiðir og senda inn umsagnir um tillöguna að deiluskipulagi. „Mér finnst gríðarlega slæmt að fólk hafi gripið til þessara skemmdarverka og finn til með þessum íbúum sem þar eru. Ég beini því til fólks að beina sínum athugasemdum að okkur en ekki að fólki sem í rauninni erfir málið,“ segir Pawel í samtali við mbl.is

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar. mbl.is/Eggert

Teitur Atlason, fyrrverandi varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar vakti máls á skemmdarverkunum á umræðusíðu Vesturbæjar á facebook í gær.

Mætir tillagan þar harðri gagnrýni meðal annars þar um er að ræða heimild upp á stækkun lóðanna sem nær lengra en íbúar við Einimel hafa farið fram á.

Teitur hefur meðal annars vænt borgaryfirvöld um að reyna að þóknast „valdamiklu fólki“ og segir ásteninginn beinlínis grunsamlegan. Þá bendir hann á að ljóst sé í öllum gögnum um málið að ekki liggi vafi á eignarhaldi lóðanna. 

Reykjavíkurborg hefur á vef sínum birt öll samskipti við lóðareigendur við Einimel 18-26, sem hlut eiga að máli á heimasíðu sinni.

Teikning af skipulagi túnsins.
Teikning af skipulagi túnsins. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Stækki ekki sjálfkrafa

„Þetta er heimild. Ef deiluskipulag verður samþykkt munu lóðirnar ekki stækka sjálfkrafa heldur verður þá hægt að ganga frá nýjum lóðaleigusamningum. Þá fyrst munu afnot formlega færast til lóðareigendanna,“ segir Pawel. 

Spurður hvers vegna gert er ráð fyrir að lengja lóðirnar um 3,1 meter en ekki þann 1,5 meter sem farið er fram á áframhaldandi afnot af segir Pawel að miðað sé við beina línu beðum í norðvesturhluta túnsins. „Okkur þótti rökréttast að sú lína myndi halda áfram eftir túninu frekan en að þetta færi í einhverskonar zik-zak línu,“ segir Pawel. 

Hann segir að áform borgarinnar um almenningstún á svæðinu geti vel farið saman með þessari 3,1 meters framlengingu. „Þegar við fáum túnið getum við skipulagt svæðið með gróðri og leiktækjum eins og almenningstún eru sæmd af.“

Ekki deilt um eignarhald heldur afnot

„Eingin hefur alltaf verið borgarinnar en afnotin hafa í raun ekki verið á forræði borgarinnar svo árum skiptir. Það er það sem við erum að reyna að breyta.“

Skýringarmynd af löglegum lóðarmörkum og hvar lóðin liggur í raun.
Skýringarmynd af löglegum lóðarmörkum og hvar lóðin liggur í raun. Ljósmynd/Stöð 2

Hann bendir á að farið hafi verið fram á að girðingin sem reist var fyrir einum fimmtán árum við Einimel 18 og 20 á borgarlandi yrði fjarlægð. „Því erindi var svarað og að einhverju leiti gripið til varnar. Ágreiningurinn snérist ekki um eignarhald á landinu. Rökin sem voru fram færð, án þess að ég taki afstöðu til þeirra,  í svari lóðarhafa er að hefð hafi myndast á afnotarétti og að borgin væri ekki að gæta meðalhófs ef að hún myndi fara fram á að láta fjarlægja girðingar og gróður sem þarna hefur verið settur niður.“ Með því svarar Pawel ábendingum Teits um að ekki leiki neinn vafi á eignarhaldi lóðanna. 

Pawel segir að málið eigi ekki vera fordæmisgildandi þrátt fyrir að víða um borg séu dæmi um að lóðir séu í fóstri eða girðingar inni á borgarlandi. „Borgin hefur ekki með kerfisbundnum hætti vaðið í þau mál af þunga,“ segir Pawel. 

Telur tillöguna ekki hafa fordæmisgildi

Ef að  fleiri mál koma upp þar sem fyrir liggur löng hefð um afnotarétt, er málið þá ekki fordæmisgefandi?

„Það er það ekki. Þetta er tillaga sem að við auglýsum. Það stendur ekki til að gefa þessar eignir, þetta er heimild til að ganga til samninga um leigu eða sölu á landi í eigu borgarinnar. Það ætti síðan ekki að vera flókið að leggja mat á verðmæti lóðarinnar og láta það svo endurspegla sanngjarnri lóðarleigu og sanngjörnum fasteignagjöldum – sem myndu þá hækka í kjölfarið.“

Eru úrslitakostir íbúanna þá að leigja lóðina eða kaupa með tilheyrandi hækkunum eða að rífa niður girðingu og gróðurinn sinn?

„Ég ætla ekki að setja þetta fram sem neina úrslitakosti. Það er ekki þannig sem við ætlum að nálgast þetta. En verið tillagan samþykkt fáum við heimild til að ganga til samninga við íbúana um að lóðirnar þeirra stækki og leigan breytist um það sem því nemur. Ef ekki næst samkomulag þá er afstaða borgarinnar að lóðarmörkin eins og þau eru upprunnalega gilda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert