Verði kastað út í hafsauga

Jóhann Páll Jóhannsson.
Jóhann Páll Jóhannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar má sjá ótrúlegt skeytingarleysi gagnvart almannaþjónustu í landinu, gríðarlegt útgjaldaaðhald og vanfjármögnun á okkar sameiginlegu stofnunum.

Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag undir dagskrárliðnum störf þingsins og bætti við að þetta væri þvert á fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála.

„Ég vona að það séu einhver mál á leiðinni. Ég vona að þessari fjármálaáætlun verði nú bara kastað eitthvert út í hafsauga og ný lögð fram því þetta er algjörlega úr takti við það sem hefur verið lagt hér upp með og það sem talað var um í kosningabaráttunni í haust,“ sagði Jóhann Páll.

Samdráttur í íbúðakerfi með handafli

Hann steig aftur í pontu síðar og nefndi að samkvæmt fjármálaáætlun ætli ríkisstjórnin að lækka stofnframlög til almenna íbúðakerfisins um tvo milljarða króna. Þannig ætli hún að framkalla samdrátt í framboði af félagslegu húsnæði með handafli.

„Þetta sama fólk vogar sér svo að hía alltaf á Reykjavíkurborg, sveitafélagið sem ber uppi félagslega húsnæðisuppbygginu og það að liðka fyrir henni á Íslandi. Það er skömm að þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert