„Vinnumarkaðurinn þarf að forgangsraða“

Bjarni Benediktsson á fundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hvetur til þess að vinnumarkaðurinn horfi til síðustu kjaralota þegar komi að komandi lotu síðar á þessu ári. Hann segir að með áherslu á vexti og hóflegt verðlag hafi tekist að halda aftur af verðbólgu. Ný fjármálaáætlun var kynnt í morgun en þar er unnið út frá 1-1,5% hækkun launa umfram verðlag.

Nýja fjármálaáætlun gengur að stóru leyti út á að spár um ríflegan hagvöxt gangi eftir sem og að útgjaldaaukning ríkissjóðs verði tempruð mikið á áætlunartímabilinu, samhliða því að sérstakar ráðstafanir sem ráðist var í vegna faraldursins renni sitt skeið á enda.

Fram undan eru kjarasamningar í haust og stendur verðbólga nú í 6,7% og hefur ekki mælst meiri í yfir áratug. Þar spilar mikið inn í mikil hækkun húsnæðisverðs. Sagði Bjarni meðal annars við mbl.is eftir fundinn í morgun að minniháttar aðhaldskrafa væri í flestum málaflokkum utan heilbrigðismála, en að horft yrði til þess að raunvöxtur útgjalda yrði um 1%.

Mestar áhyggjur af verðbólgunni

Spurður út í stöðuna og hvort hann hafi áhyggjur af komandi kjarasamningum með tilliti til þess hvort miklar hækkanir þar gætu sett fjármálaáætlunina út af sporinu segir Bjarni að horfa þurfi til þess sem vel tókst í síðustu kjaralotum.

Segist hann hafa mestar áhyggjur af þeirri verðbólgu sem sé að mælast núna í aðdraganda kjarasamninga.

„Það er ekki hjálplegt fyrir kjaraviðræður að hafa verðbólgu nokkuð yfir markmiði. En þá skiptir máli að ríkissjóður er hér að boða áætlun sem talar inn í þær aðstæður þar sem við erum að segja að við munum ekki valda viðbótarverðbólgu með ríkisfjármálunum, heldur þvert á móti teljum við aðstæður núna til að vinna að jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðvun skuldasöfnunar,“ segir Bjarni.

Horfi til fyrri kjaralota

Spurður út í hvað gert sé ráð fyrir mikilli launahækkun í fjármálaáætluninni segir Bjarni að almennt sé horft á um 1 til 1,5% ofan á verðbólgu, en tekur fram að ekkert sé fast um slíkt.

„Vinnumarkaðurinn þarf að forgangsraða og mér finnst það jákvætt úr síðustu kjaralotum hversu mikil áhersla var lögð á vexti í landinu og hóflegt verðlag til að halda aftur af verðbólgu. Þetta eru lykilatriði ekki bara í síðustu kjaralotu, heldur líka lotunni á undan. Menn voru að vonast til að ná verðbólgu niður og vöxtum og það tókst og ég held að menn eigi að vera bjartsýnir að þeir geti haft mikilvægt framlag inn þá baráttu í komandi kjaralotu sömuleiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert