„Æpir á mann að við þurfum að gera miklu meira“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ekki tímabært að horfa til þess að leggja af stað í nýtt sjúkrahúsaverkefni í ljósi niðurstaðna úr skýrslu McKinsey um þróun Landspítalans, en þar kom fram að þörf væri fyrir 50% fleiri rými á Landspítalanum árið 2040 en áætlað er að verði í boði þegar nýr Landspítali opnar á Hringbraut 2026.

Þurfi að nýta ódýrari og fjölbreyttari úrræði

Segir Bjarni að ráðast þurfi í allskonar aðgerðir til að koma í veg fyrir það ástand sem skýrslan bregður upp, en að hann telji það þó ekki fela í sér nýtt sjúkrahús. „Það æpir á mann að við þurfum að gera miklu meira bæði í forvarnarskyni, eins og lýðheilsumálum, og í öðrum forvörnum. En ekki síður að nýta ódýrari og fjölbreyttari úrræði,“ segir Bjarni og segir hægt að draga úr eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum með að nýta fjölbreyttari þjónustuúrræði.

Nefnir hann að mikilvægt sé að ríkið sé í góðu sambandi við sveitarfélög og til dæmis þurfi að horfa til þess við gerð skipulags fyrir byggð að þar sé hugað að þörfum kynslóða sem séu að eldast. Þá hafi ýmiss verkefni náð góðum árangri við að viðhalda lengur góðri almennri heilsu eldri borgara og það telji allt.

Sorglegt að sjá hvernig spítalinn sé nýttur

Þegar kemur að Landspítalanum segir Bjarni það sorglegt að sjá að hann sé í dag að þjónusta fólk sem ætti í raun að vera löngu búið að útskrifa og koma í ódýrari úrræði annars staðar í kerfinu. „Þetta eru þessir flöskuhálsar sem við erum alltaf að tala um, stíflur í kerfinu, flæðilínan er ekki að virka og við því þarf að bregðast og með því munu sparast miklir fjármunir,“ segir Bjarni.

Segir hann að bæði sé á hjúkrunarheimilum fólk sem hefði verið hægt að styðja við fyrr og hraðar með öðrum hætti á öðrum stöðum en á hjúkrunarheimili. Það leiði til að ekki sé hægt að koma fólki, sem ætti frekar heima á hjúkrunarheimilum af spítölum.

Bjarni segir að taka þurfi hjúkrunarheimilamálin til heildarendurskoðunar og að …
Bjarni segir að taka þurfi hjúkrunarheimilamálin til heildarendurskoðunar og að of mikið af fólki sé inn á sjúkrahúsum sem ætti að vera í ódýrari úrræði. mbl.is/Jón Pétur

Færa megi hluta þjónustunnar frá ríkinu

Bjarni segir þessi mál í skoðun í ráðuneytinu, en vísar jafnframt til þess að færa megi hluta þjónustunnar frá ríkinu. „Þessi mál eru á dagskrá og ráðherrann er með nýkominn með skýrslur í hendurnar eða áform um breytingar. Við erum að setja tugi milljarða á þessu áætlunartímabili í að fjárfesta og í mínum huga þá þarf að taka hjúkrunarheimilamálin til heildarendurskoðunar, t.d. með hliðsjón af því hvort það sé skynsamlegt að vera með þetta sem opinbera framkvæmd allt saman.“

Þannig spyr hann hvort rétt sé að hið opinbera sé með langtímaáætlanir um fjölda hjúkrunarheimila eða rýma á hjúkrunarheimilum. Svarar hann því sjálfur að réttast þætti honum að láta fjármagn fylgja fólki og leyfa lausnunum að koma fram í gegnum sjálfseignastofnanir eða aðra sem eru starfandi á þessu sviði. „Láta þá um að þróa og byggja nýjustu lausnirnar en ekki ríkisvæða allar lausnir. Ég held að við getum gert margt svo mikið mikið betur á þessu sviði,“ segir Bjarni.

„Höfum verið með blæðingu hér og þar í kerfinu“

Bjarni sagði eftir kynningarfund á fjármálaáætlun í dag við mbl.is að ekki væri horft til þess að gera aðhaldskröfu á heilbrigðiskerfið. Hins vegar teldi hann að margt mætti gera betur þar til að auka framlegð. „Við höfum verið með blæðingu hér og þar í kerfinu sem allir hafa horft á með opnum augum. Það er t.d. ekki skynsamleg nýting á opinberu fé að kaupa aðgerðir að utan þegar hægt er að framkvæma þær með ódýrari hætti hér heima.“

Spurður hvort hann telji að einhver breyting verði á því á þessu kjörtímabili segir hann að sér heyrist sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra vilji breyta því. „Já ég er að vonast til þess að af því verði,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert