Átak Blindrafélagsins og Lionshreyfingarinnar á Íslandi til að tryggja fleiri leiðsöguhunda hingað til lands hefst í dag með athöfn á Bessastöðum.
„Leiðsöguhundar eru gríðarlega öflugt hjálpartæki fyrir blint og verulega sjónskert fólk og veita þeir notendum mikið frelsi og aukið öryggi. Hundarnir eru líka einstaklega góðir félagar og mörg dæmi um að þeir hafi rofið félagslega einangrun fólks og þannig stuðlað að virkari þátttöku blinds og sjónskerts fólks í samfélaginu,“ segir í tilkynningu.
Tólf sérþjálfaðir leiðsöguhundar hafa fengist hingað til lands á undanförnum árum. Þörf er á átaki til að tryggja fleiri hunda hingað, bæði til nýrra notanda og svo til að leysa þá hunda af hólmi sem komnir eru á starfslokaaldur.
Í tilefni átaksins verður rauða fjöðurin seld dagana 31. mars til 3. apríl. Verndari söfnunarinnar er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem mun kaupa fyrstu fjöðrina við hátíðlega athöfn á Bessastöðum kl. 14:30 í dag.
Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, segir þörfina fyrir fleiri leiðsöguhunda hér á landi brýna.
„Yfir 90% þeirra fjármuna sem Blindrafélagið þarf til að halda úti mikilvægri starfsemi og þjónustu er sjálfsaflafé. Stuðningur almennings og samtakamáttur í gegnum hreyfingar á borð við Lions, sem sér um sölu á rauðu fjöðrinni á Íslandi, hafa því verið helsti drifkraftur við fjármögnun mikilvægra hjálpartækja á borð við leiðsöguhunda,“ segir Sigþór í tilkynningunni.